Dagur aðgengis fyrir alla er 11. mars

  • Dagur aðgengis fyrir alla er 11. mars

Dagur aðgengis fyrir alla er hvatningarátak fyrir hreyfihamlaða til að fara út fyrir þægindaramman og prófa eitthvað nýtt. Það getur verið að fara á kaffihús, í bíó, á listasöfn eða einfaldlega á næsta bókasafn. Þessi dagur á upptök sín í Bretlandi og hefur verið haldinn þar síðan 2015.

Á Degi aðgengis fyrir alla hafa jafnt fyrirtæki og stofnanir beint sjónum að sínum aðgengismálum og vakið athygli á því að þau mismuna ekki landsmönnum á grundvelli hreyfihömlunar.

Markmiðið á þessu degi er þó fyrst og fremst að hvetja hreyfihamlað fólk til að prófa og upplifa eitthvað nýtt, efla sjálfsöryggi þeirra og um leið stuðla að því að rjúfa félagslega einangrun þeirra.

Við á Borgarbókasafninu erum stolt að þeirri aðstöðu og þeirri þjónustu sem lýtur að jöfnu aðgengi fyrir alla auk þess sem við reynum sífellt að koma til móts við notendur okkar með hærra þjónustustigi og innleiðingu á nútímalegri og þægilegri þjónustu. Bókin heim er ætluð öldruðum og öðrum sem vegna fötlunar eiga ekki heimangengt á safnið og hefur verið í boði frá 1974.

Af nýjungum í þjónustunni má nefna Naxos efnisveituna sem var innleidd síðla hausts. Naxos er rafræn efnisveita þar sem lánþegar geta sótt sér tónlist, heimildarmyndir, fræðslumyndir auk ýmiskonar tónlistartengds fróðleiks. Í byrjun árs tókum við svo Rafbókasafnið í notkun þar sem lánþegar geta nálgast raf- og hljóðbækur. Með þessu fá lánþegar ekki einungis aðgang að stærri og fjölbreyttari safnkosti heldur geta þeir nálgast efnið hvar og hvenær sem er.

Allir dagar á bókasafninu eru dagar aðgengis og þótt mjög margt hafi áunnist á undanförnum árum og áratugum erum við meðvituð um það að vitaskuld má alltaf gera betur.