Endurskoðaður samningur Borgarbókasafnsins og Sambands íslenskra myndlistarmanna um rekstur og hýsingu Artóteks

Þann  1. mars 2017 tók gildi endurskoðaður samningur á milli Borgarbókasafnsins og Sambands íslenskra myndlistarmanna (SÍM). Helsta breytingin er sú að SÍM  tekur nú yfir rekstur og bókhald Artóteksins en Borgarbókasafnið sér um hýsingu, kynningu og sýningarhald. Í þessari endurskoðun var farið vel yfir alla samstarfsfleti og verkferla. Samningar milli Artóteks og listamanna og Artóteks og lánþega voru jafnframt endurskoðaðir.

Samstarfsnefnd Borgarbókasafnsins og SÍM um Artótekið vinnur nú að því í sameiningu að efla starfsemi Artóteksins, fjölga lánþegum/kaupendum með markvissri kynningu og tryggja gott úrval og eðlilega endurnýjun verka.

Við höfum í nokkra mánuði unnið að því að fjölga áskrifendum fyrir fréttabréfin okkar og framundan er sérstakt átak til þess að fjölga þeim fyrir fréttabréf okkar um sýningarhald safnsins og starfsemi Artóteksins. Við vonumst jafnframt til þess að listamenn og gestir Artóteksins aðstoði okkur eftir mætti við að kynna starfsemi Artóteksins, t.d. með því að vísa á fréttabréfið, vera virkir á facebooksíðu Artóteksins og nota myllumerkin  #artotekid og #borgarbokasafnid.

Sýningarhald undir merkjum Artóteksins hefur til þessa farið fram í Borgarbókasafninu í Grófinni á svokölluðu Reykjavíkurtorgi.  Í ár munum við einnig bjóða upp á sýningar á verkum úr Artótekinu í Spönginni og Gerðubergi . Við bjóðum nú listamönnum í Artóteki að leggja inn umsóknir fyrir þau sýningartímabil sem um ræðir. Sýningarnefnd Borgarbókasafnsins mun síðan fara yfir og velja úr innsendum umsóknum.

Menningarhús Gerðubergi – sýningarými á neðri hæð:
Sýningartímabil 1:            júní – ágúst 2017
Sýningartímabil 2:            nóvember 2017 – janúar 2018

Menningarhús Spönginni – sýningarými á neðri hæð:
Sýningartímabil 1:            september – október 2017
Sýningartímabil 2:            nóvember 2017 – janúar 2018

UMSÓKNARFRESTUR:  1. APRÍL 2017
Með umsókn þarf að fylgja ferilskrá og ljósmyndir af völdum verkum.
Umsóknir skal senda á netfangið: artotek [at] reykjavik.is

Við tökum fagnandi ábendingum frá listamönnum og gestum Artóteksins um það sem betur má fara í starfseminni og vonumst til að eiga áfram gott og farsælt samstarf.