Rafbókasafnið fagnar eins árs afmæli

Þann 30. janúar var nákvæmlega eitt ár liðið síðan Rafbókasafnið fór í loftið. Fyrst í stað gátu aðeins korthafar Borgarbókasafnsins fengið lánað en nú hafa almenningsbókasöfn um allt land veitt lánþegum sínum aðgang að safninu og þar með rúmlega 4000 titlum.

Í Rafbókasafninu eru rúmlega 3.000 rafbækur og 600 hljóðbækur, mest enskar rafbækur. Hlutur hljóðbóka fer þó ört vaxandi, enda njóta þær sívaxandi vinsælda. Líkt og á öðrum bókasöfnum er safnkosturinn fjölbreyttur; en þar má finna skáldverk, fræðirit og rit almenns efnis, bæði nýtt efni og klassík.

Að undanförnu hefur bæst við íslenskan safnkost, en vonir standa til að fljótlega muni íslenskar rafbækur bætast við í enn frekara mæli.

Raf- og hljóðbækurnar má lesa og hlusta á vef safnsins, eða í snjalltækjum með smáforritunum Overdrive eða Libby. Þannig geta lesendur safnsins lesið sínar bækur hvar og hvenær sem er og hafa því í raun heilt bókasafn í vasanum. Rafbókasafnið er alltaf opið og þar eru engar sektir, því kerfið sér sjálft um að skila bókum þegar lánstími er útrunninn.

Allar nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu Rafbókasafnið og svo vitanlega á aðildarsöfnum Rafbókasafnsins um land allt.

Hér má hlusta á viðtal við borgarbókavörð, Pálínu Magnúsdóttur, (frá 38 mín.) þar sem hún fjallar m.a. um Rafbókasafnið, bóklestur og starfsemi bókasafna almennt.