Sjónhverfingar | Ritþing Gerðubergs

Sjón, Sjónhverfingar, Ritþing Gerðubergs, Borgarbókasafnið Menningarhús Gerðuberg

Sjónhverfingar | Ritþing Gerðubergs

Menningarhús Gerðubergi, laugardag 22. október kl. 14 - 16.30

Ritþing Gerðubergs hafa verið haldin frá árinu 1999 og eiga fastan sess í menningarlífi borgarinnar. Á ritþingi situr rithöfundur fyrir svörum stjórnanda og tveggja spyrla í léttu og persónulegu spjalli, leikin er lifandi tónlist sem tengist höfundi og lesið upp úr verkum hans. Á þennan hátt gefst lesendum og áheyrendum einstakt tækifæri til að öðlast persónulega innsýn í líf og feril rithöfundarins, kynnast persónunni á bakvið verkin, viðhorfum hans og áhrifavöldum.

Á ritþingi haustsins, sem ber yfirskriftina Sjónhverfingar, er höfundurinn Sjón gestur. Stjórnandi þingsins er Gunnþórunn Guðmundsdóttir og spyrlar eru Jón Karl Helgason og Guðni Elísson.

Tónlist flytur Ásgerður Júníusdóttir, mezzosópran og Tinna Þorsteinsdóttir leikur með á píanó. Þær frumflytja Fjögur næturljóð eftir Atla Heimi Sveinsson, ásamt tónlist eftir Ragnhildi Gísladóttur og Björk Guðmundsdóttur við ljóð Sjóns. 

Ritþingið stendur frá klukkan 14-16.30 í Borgarbókasafninu Gerðubergi. Að þingi loknu bjóða Borgarbókasafnið og Forlagið til móttöku, en í vikunni fyrir ritþingið er nýjasta bók Sjóns, Codex 1962, væntanleg hjá Forlaginu. Þar með lýkur hann þríleiknum sem hófst á verkunum Augu þín sáu mig og Með titrandi tár.

Ritþingin eru hljóðrituð og gefin út á prenti en útgáfuna má síðar nálgast rafrænt á heimasíðu Borgarbókasafnsins. Þingin eru því ekki aðeins ánægjuleg upplifun þeirra sem hlusta á staðnum heldur einnig varanleg heimild um viðkomandi rithöfund.

Enginn aðgangseyrir og allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir. 

Nánari upplýsingar veitir: Sunna Dís Másdóttir, verkefnastjóri, sunna.dis.masdottir [at] reykjavik.is, s. 411 6109

Dagsetning viðburðar: 

Laugardagur, 22. október 2016

Staðsetning viðburðar: 

Viðburður hefst: 

14:00

Viðburður endar: 

16:30