Tilnefningar Hagþenkis

Tilnefningar til Viðurkenningar Hagþenkis 2017 voru kynntar á Borgarbókasafninu í Grófinni síðdegis fimmtudaginn 1. febrúar.

Höfundar tíu fræðirita sem komu út í fyrra tóku við viðurkenningu frá formanni félagsins, Jóni Yngva Jóhannssyni.

Sjálf viðurkenning Hagþenkis verður veitt að mánuði liðnum við hátíðlega athöfn á Þjóðarbókhlöðu.

Á degi bókarinnar þann 23. apríl munu Hagþenkir og Borgarbókasafnið standa fyrir kynningu á tilnefndum ritum í samstarfi við höfunda þeirra, en nánar um það síðar.

Hagþenkir er félag höfunda fræðirita og kennslugagna og hefur frá árinu 1986 veitt viðurkenningu fyrir fræðirit, námsgögn eða aðra miðlun fræðilegs efnis til almennings. Árið 2006 var tekin upp sú nýbreytni að tilnefna tíu höfunda og bækur er til greina kæmu.

Viðurkenningaráð Hagþenkis, skipað fimm félagsmönnum, stendur að valinu en það hóf störf um miðjan október og fundaði vikulega og í því eru: Auður Styrkársdóttir, Guðný Hallgrímsdóttir, Henry Alexander Henrysson, Helgi Björnsson og Sólrún Harðardóttir.

Tilnefningar til Viðurkenningar Hagþenkis árið 2017

Aðalheiður Jóhannsdóttir. Inngangur að skipulagsrétti – lagarammi og réttarframkvæmd. Háskólaútgáfan.
Umsögn dómnefndar: „Heildstætt rit um flókinn heim skipulagsréttar. Handbók sem gagnast bæði lærðum og leikum.“

Ásdís Jóelsdóttir. Íslenska lopapeysan – uppruni, saga og hönnun. Háskólaútgáfan.
„Margþætt rannsókn í textílfræði sem lýsir samspili handverks, hönnunar og sögu prjónaiðnaðar í fallegri útgáfu.“

Egill Ólafsson † og Heiðar Lind Hansson. Saga Borgarness I og II. – Byggðin við Brákarpoll og Bærinn við brúna. Borgarbyggð og Opna.
„Áhugaverð saga sem á sér skýran samhljóm í þróun Íslandsbyggðar almennt, studd ríkulegu og fjölbreyttu myndefni.“

Hjálmar Sveinsson og Hrund Skarphéðinsdóttir. Borgin – heimkynni okkar. Mál og menning.
„Fróðleg hugvekja og framlag til þjóðfélagsumræðu um skipulag, lífshætti og umhverfismál í borgarsamfélagi.“

Stefán Arnórsson. Jarðhiti og jarðarauðlindir. Hið íslenska bókmenntafélag.
„Einstaklega ítarlegt rit um auðlindir í jörðu og brýn áminning um að huga að sjálfbærni við nýtingu náttúruauðæfa.“

Stefán Ólafsson og Arnaldur Sölvi Kristjánsson. Ójöfnuður á Íslandi – skipting tekna og eigna í fjölþjóðlegu samhengi. Háskólaútgáfan.
„Skýr og aðgengileg greining á þróun eigna og tekna á Íslandi og misskiptingu auðs í alþjóðlegum samanburði.“

Steinunn Kristjánsdóttir. Leitin að klaustrunum – klausturhald á Íslandi í fimm aldir. Sögufélag og Þjóðminjasafn Íslands.
„Umfangsmikil og vel útfærð rannsókn sem varpar nýju ljósi á sögu klausturhalds á Íslandi. Frásagnarstíll höfundar gefur verkinu aukið gildi.“

Unnur Jökulsdóttir. Undur Mývatns – um fugla, flugur, fiska og fólk. Mál og menning.
„Óvenju hrífandi frásagnir af rannsóknum við Mývatn og sambandi manns og náttúru.“

Úlfar Bragason. Frelsi, menning, framför – um bréf og greinar Jóns Halldórssonar. Háskólaútgáfan.
„Næm lýsing á sjálfsmynd, væntingum og viðhorfum vesturfara við aðlögun þeirra að samfélagi og menningu Norður-Ameríku.“

Vilhelm Vilhelmsson. Sjálfstætt fólk – vistarband og íslenskt samfélag á 19. öld. Sögufélag.
„Aðgengilegt og vel skrifað rit sem sýnir hvernig vinnufólk fyrri tíma gat haft áhrif á bága stöðu sína með hversdagslegu andófi og óhlýðni.“