Tilraunaverkstæði á Borgarbókasafninu

  • Kóder tilraunaverkstæði í Grófinni, júli 2016
  • Kóder tilraunaverkstæði í Grófinni, júlí 2016
  • Kóder tilraunaverkstæði í Grófinni, júlí 2016

Samstarf Kóder og Borgarbókasafns vorið 2017

Borgarbókasafnið vill leggja sitt af mörkum til að auka aðgengi að tækniþekkingu meðal krakka og ungmenna. Liður í því er samstarf við félagasamtökin Kóder sem hófst sumarið 2016 og strax um haustið byrjuðu menningarhúsin að prófa sig áfram með tilraunaverkstæði með leiðbeinendum frá Kóder. Samtökin hafa að leiðarljósi að breiða út þekkingu á forritun til sem flestra án tillits til stöðu eða efnahags. Markmið samstarfsins er að bjóða börnum upp á ýmiss konar smiðjur og námskeið. Vorið 2017 höldum við áfram og býður Borgarbókasafnið upp á tilraunaverkstæði í Gerðubergi og Spönginni þar sem verður unnið með fjölbreytta og skapandi nálgun við forritun og tækni.

Frá janúar mun Borgarbókasafnið bjóða upp á tækni- og tilraunaverkstæði, einn laugardag í mánuði á hvorum stað og eru það ætlað fjölskyldum með börn á aldrinum 6-12 ára til að kynnast forritun, skapandi tækni og leikjum. Þar verður meðal annars hægt að kynnast Raspberry Pi, fyrstu skrefum í forritun í Scratch, sem hentar yngstu börnunum vel, og læra grunnhugtök forritunar með því að forrita í Minecraft, leika með makeymakey og fleira. Ekki er um eiginleg námskeið að ræða, heldur tækifæri fyrir fjölskyldur að kynnast, fikta og læra saman með aðstoð leiðbeinenda frá Kóder. Tilraunaverkstæðin verða á dagskrá um helgar og eru öllum opin að kostnaðarlausu.

Auk þess verður 9-12 ára krökkum boðið að koma á bókasafnið annan hvern mánudag kl. 14.30-16.30. Þá verða leiðbeinendur á staðnum og mismunandi hlutir teknir fyrir og svipuð þemu og í helgardagskránni. Aðra daga geta krakkar komið sjálf og hafa aðgang að tölvunum og geta fiktað sig áfram í forritunarleikjum og æft það sem þau hafa lært. Þátttaka er ókeypis, en aðeins eru 12 tölvur á hvorum stað og því gæti þurft að skiptast á. 

Samtökin Kóder hafa staðið fyrir fjölbreyttum námskeiðum fyrir börn og unglinga í ýmiss konar forritun með þá hugsjón að öll börn skuli hafa greiðan aðgang að þeirri þekkingu sem forritun, tæknikunnátta og tæknilæsi felur í sér. Þau hafa einnig haldið námskeið fyrir grunnskólakennara sem vilja auka þekkingu sína og nýta forritun í eigin starfi. Borgarbókasafnið deilir þeirri hugsjón að tæknilæsi sé ákaflega mikilvægur þáttur í menntun barna og mun leitast við að styðja það á komandi misserum. 

Kveikja áhuga barna á tækni og forritun

Bókasöfn eru í hraðri þróun í átt að því að verða lærdóms- og þekkingarrými. Almenningsbókasöfn víða um heim eru leiðandi í tilraunum um að veita opinn aðgang að nútímatækni og tækjabúnaði þar sem útbúin eru svokölluð „Makerspaces“ eða tilraunaverkstæði þar sem gestir fá aðgang að opnu rými til að prófa sig áfram, skapa og uppgötva nýja hluti. Þannig stuðla bóksöfnin að jöfnu aðgengi barna og fullorðinna til að kynna sér spennandi tækni og öðlast meiri hæfni.

Tæknilæsi og forritun eru óðum að verða lykilþættir í menntun barna og fullorðinna, auk þess sem hugmyndafræði nýsköpunar nýtist á öllum sviðum. Borgarbókasafnið stefnir að því að verða skapandi samverurými sem styður þekkingaröflun á fjölbreyttan hátt. Með þessu verkefni er unnið að því að efla læsi fólks á stafrænum miðlum, með því að skapa vettvang og aðstöðu til að kynna nýja tækni og hugmyndir sem leiðir til nýrrar þekkingaröflunar. 

Dagskrá vorið 2017 má sjá í viðburðardagatali okkar og á Facebook-síðu Menningarhússins í Gerðubergi og í Spönginni. 

Ásta Þöll Gylfadóttir, verkefnastjóri nýsköpunar og þróunar, hefur umsjón með verkefninu sem er unnið  í samstarfi við barnabókaverði, aðra starfsmenn í menningarhúsum Borgarbókasafnsins og kennslustjóra Kóder.

Netfang: asta.tholl.gylfadottir [at] reykjavik.is
Sími: 411 6111 / 865 1092

Jón Levý, kennslustjóri Kóder

Netfang: levy [at] koder.is

 

Í Menningarhúsinu Gerðubergi:  

Arna Björk Jónsdóttir: arna.bjork.jonsdottir [at] reykjavik.is 

Í Menningarhúsinu Spöng:

Nanna Guðmundsdóttir: nanna.gudmundsdottir [at] reykjavik.is