Úrslit Bókaræmunnar: Karolina Irena Niton sigrar með örmynd um It eftir Stephen King

Rétt í þessu voru úrslit Bókaræmunnar 2018 tilkynnt í Bíó Paradís. Var það hún Karolina Irena Niton sem bar sigur af hólmi með örmynd sinni IT sem byggð er á bókinni um trúðinn ógnvænlega eftir Stephen King. Karolina er fædd árið 2003 og er 15 ára gömul og fær hún í verðlaun Lenovo spjaldtölvu frá Origo, 8.000 kr. inneign frá Nexus, tvær bækur frá Bókabeituni, hamborgaramáltíð fyrir tvo á Hamborgarabúllunni, bíómiða fyrir tvo frá Laugarásbíói og Bíó Paradís. Þess má geta að í fyrra hreppti Karolina annað sætið á Bókaræmunni þegar hún gerði örmynd um Carrie eftir sama höfund.

Hulda Eir Sævarsdóttir, sem einnig er 15 ára, var í öðru sæti en hún gerði örmynd um bókina Violet og Finch eftir Jennifer Niven. Hulda fær í verðlaun 6.000 kr. gjafabréf frá Nexus, tvær bækur frá Bókabeitunni, hamborgaramáltíð fyrir tvo á Hamborgarabúllunni, bíómiða fyrir tvo frá Laugarásbíói og Bíó Paradís.

Í þriðja sæti var örmynd eftir þá Eirík Atla Karlsson og Sigurð Skorra Arnalds, sem báðir eru 16 ára gamlir. Þeir sóttu innblástur í bókina Vertu ósýnilegur eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttur. Þeir fá hamborgaramáltíð fyrir tvo á Hamborgarabúllunni. Einnig fá þeir, hvor um sig, 4.000 kr. gjafabréf frá Nexus, tvær bækur frá Bókabeitunni og bíómiða fyrir tvo Laugarásbíó og Bíó Paradís.

Dómarar voru Stefán Máni rithöfundur, Karl Pálsson leikari og tæknimaður hjá KrakkaRúv og Guðrún Baldvinsdóttir verkefnastjóri á Borgarbókasafninu. Dómnefndin hafði þetta að segja um sigurmyndina:

Þessi bókaræma stendur undir nafni; áhrifamikil ræma byggð á eftirminnilegri bók. Bókin er sýnd en í stað orða eða upplesturs er myndmálið láta tala sínu máli. Hinn hrollvekjandi andi bókarinnar er fangaður með handheldri myndavél, einföldum en áhrifaríkum tæknibrellum og drungalegri hljóðrás. Þeir sem hafa lesið bókina endurupplifa gæsahúðina sem hún kallaði fram, og þeir sem enn eiga eftir að lesa hana hljóta að bæta úr því núna – ef þeir þora!

1. sæti: Karolina Irena Niton 
IT eftir Stephen King

2. sæti: Hulda Eir Sævarsdóttir
Violet og Finch eftir Jennifer Niven

 

3. sæti: Eiríkur Atli Karlsson og Sigurður Skorri Arnalds
Vertu ósýnilegur eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttur

Bókaræman er örmyndakeppni um bækur þar sem ungt fólk á aldrinum 13-20 ára senda inn örmyndbönd (30-90 sekúndur) sem fanga umfjöllunarefni einnar bókar. Þátttakendur velja sjálfir bókina og aðferðin er frjáls. Veglegir vinningar eru í boði frá styrktaraðilum og árið 2018 voru það Origo, Hamborgarabúllan, Bókabeitan Nexus, Bíó Paradís og Laugarásbíó.

.