Viltu taka þátt í að breyta ímynd Borgarbókasafnsins?

Laus er til umsóknar staða verkefnastjóra kynningar- og markaðsmála hjá Borgarbókasafninu.

Borgarbókasafnið hefur markað sér skýra og metnaðarfulla framtíðarsýn og miklar breytingar eru í farvatninu hvað varðar starfsemi, ímynd og miðlun bókmennta og allra þeirra fjölbreyttu viðburða sem boðið er upp á. Lögð er áhersla á alþýðumenningu, barnamenningu og fjölmenningu, með samveru, upplifun, miðlun og menningarlæsi að leiðarljósi. 

Verkefnastjóri heyrir undir fræðslu- og miðlunardeild og vinnur þvert á allar starfsstöðvar Borgarbókasafnsins og hefur frumkvæði að og umsjón með verkefnum á sviði kynningar- og markaðsmála, stefnumótun, skipulagningu og hugmyndavinnu og sinnir þjónustu við notendur Borgarbókasafnsins.

Verkefnastjóri tekur virkan þátt í framkvæmd og þróun verkefna er tengjast stefnumótun Borgarbókasafnsins og því breytingaferli sem almenningsbókasöfn ganga nú í gegnum. 

Helstu verkefni og ábyrgð
Verkefnastjóri stýrir kynningu og markaðssetningu á þjónustu, viðburðum og fræðslu í samræmi við stefnu Borgarbókasafnsins. Hann ritstýrir heimasíðu, fréttabréfum, stýrir samskiptum við fjölmiðla auk þess að hafa umsjón með auglýsingum og markaðstengdri útgáfu. Verkefnastjóri kemur auk þess að þróun, skipulagningu og samhæfingu stærri verkefna á sínu fagsviði. 

Verkefnastjóri er ábyrgur fyrir heildrænni framsetningu á kynningarefni safnsins, gerð margmiðlunarefnis, virkri notkun samfélagsmiðla og þróun nýrrar miðlunar í samvinnu við aðra starfsmenn safnsins og verkefnastjóra fræðslu- og miðlunardeildar. Verkefnastjóri tekur þátt í teymisvinnu, innan safns sem utan.

Næsti yfirmaður er deildarstjóri fræðslu og miðlunar.

Hæfniskröfur
- háskólapróf á meistarastigi sem nýtist í starfi
- þekking og reynsla af kynningar- og markaðsstörfum á sviði menningarmála, reynsla á sviði fjölmiðlunar kostur en ekki skilyrði
- skapandi hugsun sem sjáist í öllu starfi
- frumkvæði og geta til að fylgja hugmyndum og verkefnum eftir
- mikil og góð hæfni í mannlegum samskiptum
- mjög góð almenn tölvukunnátta og þekking á nýmiðlun
- framúrskarandi íslenskukunnátta, góð enskukunnátta og geta til að tjá sig í ræðu og riti / kunnátta í fleiri tungumálum kostur en ekki skilyrði
- geta til að vinna undir álagi og sinna mörgum verkefnum í einu
- mjög góðir skipulagshæfileikar og fagmennska í vinnubrögðum

Laun eru samkvæmt samningi Reykjavíkurborgar og viðkomandi stéttarfélags. Æskilegt að viðkomandi geti hafið störf sem fyrst.

Starfshlutfall100%
Umsóknarfrestur10.2.2019
Ráðningarform Ótímabundin ráðning
Númer auglýsingar 6512
Nafn sviðs Menningar- og ferðamálasvið

Nánari upplýsingar um starfið veitir Guðrún Dís Jónatansdóttir í síma 411 6115 og tölvupósti gudrun.dis.jonatansdottir [at] reykjavik.is
Fræðslu- og miðlunardeild
Tryggvagötu 15
101 Reykjavík

Smellið hér til að sækja um starfið á vef Reykjavíkurborgar...

.