Vistvænar og gleðilegar jólasveinahugmyndir

Jólasveinarnir mæla með að gefa skynsamlegar gjafir í skóinn. 
Jólasveinarnir og Borgarbókasafnið eru í skemmtilegu samstarfi þessi jól. Þeir hafa nefnilega áhuga á að vera umhverfisvænni en venjulega og vilja deila því með öllum sem langar að gera jólin betri fyrir umhverfið, veskið og samviskuna. Jólasveinarnir koma með tillögur að gjöfum í skóinn á hverjum degi sem settar verða á Instagram  bókasafnsins og hér að neðan eru enn fleiri hugmyndir fyrir jólasveinana. Nú er bara að bretta upp ermarnar og aðstoða þá í markmiðum sínum að gera jólin enn grænni en venjulega.

 • Föt, dót og bækur á nytjamörkuðum, svo sem Barnaloppunni, Rauðakrossinum, Kolaportinu, Bland.is og fleiri stöðum.
 • Góðgæti - Mandarínur ... og sælgæti á þeim dögum þar sem það má.
 • Piparkökumót og krukka með innihaldi - Setja innihaldsefni í piparkökur í krukku og barnið fær að baka.
 • Notuð leikföng - Skiptast á smádóti við nágrannajólasveina.
 • Bókasafnskort  - Pssst, þau eru ókeypis fyrir börn 17 ára og yngri!
 • Eplabátar í bréfpoka til þess að fara og gefa kanínunum í Öskjuhlíð.
 • Kerti og spil ásamt fallega skrifaðum leiðbeiningum að nýjum spilakapli til að læra.
 • Saga frá jólasveininum um ævintýri sem hann hefur lent í.
 • Sokkabuxur, skyrtu, hárskraut og annað sem verður notað á jólunum.
 • Trölladeig - Setja innihaldsefni í krukkur og barnið fær að föndra. 
 • Goggur með uppbyggilegum og skemmtilegum setningum, s.s. þú ert klár, þú ert skemmtileg/ur o.s.frv.

Einnig er góð hugmynd að gefa samverustund í skóinn. Borgin okkar góða býður upp á ýmislegt skemmtilegt fyrir fjölskyldur og börn, stór sem smá. Hér að neðan sjáið þið helling að hugmyndum en jólasveinar mega endilega sækja skjalið og handskrifa inn á þá samverustund sem verður fyrir valinu.

samveruskirteini_jpeg.jpg

Sækja Samverugjafakort sem PDF

 • Miðbæjarferð í Strætó og skoða jólaköttinn og jólavættina.
 • Skautaferð.
 • Kvöldganga í myrkrinu með vasaljós.
 • Jólasögustund (með jólabók fengna að láni í bókasafninu).
 • Bókasafnsferð til að fá lánaðar bækur og pakka jólagjöfunum í bókasafninu.
 • Jólaföndur.
 • Baka pizzu saman eða uppáhaldsmat barnsins.
 • Gera púðavirki í stofunni með teppum.
 • Búa til leir og slím
 • Setja saman piparkökuhús með fjölskyldunni.
 • Stúdíótímar í Kompunni - Hefur barnið samið sögu eða ljóð? Gefðu því tíma í hljóðverinu í Borgarbókasafninu Grófinni svo það geti lesið söguna sína inn á hljóðupptöku - Pssst, Kompan er ókeypis fyrir alla sem eiga kort!