Um Höfðingja

Hressir strákar í bókabílnum Höfðingja

Vinsamlegast athugið að starfsemi Bókabílsins Höfðingja var lögð niður í lok árs 2022.

Hugmyndin að reka bókabíl í Reykjavík kom fyrst fram árið 1955 að sænskri fyrirmynd. Volvo-strætóinn sem seinna varð fyrsti bókabíllinn rann einnig af færibandinu sama ár. Borgarráð samþykkti loks að keyptur yrði bókabíll árið 1966. Eftir nokkurra ára leit var ákveðið að breyta strætisvagni sem hafði verið lagt eftir upptöku hægriumferðar 1968 í bókabíl.

Nýráðinn bókabílstjóri, Bjarni Björnsson, kom að lokuðum dyrum hjá slökkvistöðinni við Tjarnargötu á sumardaginn fyrsta 1969. Þar hafði bókabíllinn aðsetur fyrst um sinn, með geymslu fyrir 12.000 bindi. Útlán hófust þann 11. júlí það ár kl. 13:00 við verslunina Selás í Árbæ, en bókabíllinn hafði þrettán aðra viðkomustaði til að byrja með. Viðtökurnar voru mjög góðar og árið eftir lánuðust 200.000 eintök.

Fljótlega var keyptur annar minni bókabíll sem var glænýr og sérinnréttaður í Finnlandi. Hann hóf göngu sína árið 1972 og fékk nafnið Stubbur, en sá eldri og stærri var þá nefndur Höfðingi. Á ferli sínum lánuðu bókabílarnir tveir út á þriðju milljón bóka og þegar mest var lánuðust um 1000 bækur á dag í Höfðingja, sem er meira en í nokkru útibúi Borgarbókasafnsins í dag.

Um aldamótin var keyptur nýr bókabíll í stað Höfðingja, Scania bíll innréttaður í Finnlandi og myndskreyttur af Gunnari Karlssyni. Hann fór af stað 23. febrúar 2001 og í kjölfarið var Stubb lagt líka. Höfðingi eldri fór síðan á Samgöngusafnið í Stóragerði í Skagafirði og er þar enn. Þangað má heimsækja bílinn og rifja upp gamlar og góðar minningar af bókarúntinum.

Smelltu hér til að hlusta á hlaðvarpsþátt um bókabílinn Höfðingja