Innblástur og lestrarhvatning

Læsi í víðum skilningi 

Við leggjum áherslu á læsi í mjög víðu samhengi og hvetjum foreldra til að nýta sér aðstoð barnabókavarðanna þegar kemur að því að finna skemmtilegt efni fyrir krakkana. Það er um að gera að leyfa krökkunum að ráða ferðinni og finna hvar áhugi þeirra liggur þegar kemur að vali á lestrar- og afþreyingarefni. Börnin þurfa að verða læs á marga vegu, jafnt á texta, myndir, menningu og tækni. Þau geta því leitað fangað víða, s.s. í barnabókum, myndasögum, hljóðbókum, myndabókum, fræðsluefni, tónlist og kvikmyndum auk þess sem þau geta spreytt sig á ýmis konar spennandi tækni og forritun á Verkstæðunum okkar.

Hér á síðunni er fjöldinn allur af spennandi leslistum til að aðstoða börn og fjölskyldur við að velja lesefni sem hentar hverjum og einum. 

Í öllum menningarhúsum okkar er notalegt andrúmsloft og aðstaða til að setjast niður, lesa og spjalla. Ferð á bókasafnið er hin besta skemmtun fyrir alla fjölskylduna.

  • Vissir þú að börn og unglingar fá frítt skírteini til 18 ára aldurs?
  • Vissir þú að í öllum söfnum eru sérstakar barna- og unglingadeildir þar sem hægt er að setjast niður og lesa bækur eða tímarit og láta fara vel um sig?
  • Vissir þú að í Rafbókasafninu er líka efni fyrir börn og ungmenni?
  • Vissir þú að börn og unglingar mega hafa fimmtán gögn (bækur, teiknimyndasögur, tónlist, tímarit o.fl.) að láni í einu?

 

Viltu sækja þér innblástur og fylgjast með því sem er að gerast í heimi barna- og unglingabókmennta?

Borgarbókasafnið kemur að mörgum verkefnum og viðburðum sem snerta barnamenningu og barnabókmenntir. Þar má nefna barna- og unglingaráðstefnu sem haldin er árlega í Gerðubergi og alþjóðlegu barnabókmenntahátíðina Mýrina sem haldin er í Norræna húsinu annað hvert ár. Borgarbókasafnið kemur jafnframt að skipulagningu Barnabókaverðlauna Reykjavíkurborgar sem borgarstjóri veitir síðasta vetrardag ár hvert í Höfða. Síðast en ekki síst ber að nefna Bókaverðlaun barnanna þar sem börnin sjálf kjósa um bestu frumsömdu og bestu þýddu barnabókina. Þau verðlaun eru nú kynnt undir hatti verðlaunahátíðarinnar Sögur.