Aðstaða í Gerðubergi

Í Gerðubergi er fjölbreytt aðstaða fyrir fólk á öllum aldri til að koma saman og njóta samveru, glugga í bækur og tímarit, kíkja á viðburð eða vinna að eigin hugðarefnum í ró og næði. Tilvalið er fyrir hópa að mæla sér mót á safninu eða í kaffihúsinu til að ræða nýjustu skáldsögurnar, spila saman borðspil eða sinna hannyrðum. 

Ókeypis aðgengi er að tölvum auk þess sem hægt er að koma sér vel fyrir og lesa dagblöð, tímarit eða annað efni. Notendur geta fengið að ljósrita, prenta eða skanna gögn gegn vægu gjaldi. 

Fjölskyldur með lítil börn eiga sér athvarf í barnadeildinni þar sem gott er að kúldrast og leika sér eða fletta í gegnum myndríkar bækur. Börn og ungmenni frá 9 ára aldri eiga sér athvarf innar á bókasafninu og í lestrar- og lærdómsrýminu, þar sem skapast gott næði fyrir unga sem aldna til að lesa, vinna í hópum eða læra.

Ertu með hugmynd að viðburði, sýningu eða samstarfsverkefni? Sjá umsóknarsíðu... 

Hringrásarsafnið er tilraunaverkefni í samstarfi við Munasafnið RVK Tool Library og sjálfsafgreiðsluskápa má finna á Borgarbókasafninu Gerðubergi. Markmiðið er að bjóða upp á aðgengi að allskonar hlutum og smærri verkfærum. Líkt og þú færð bækur lánaðar, getur þú nú fengið hluti að láni. 

Á Cocina Rodriques kaffihúsinu er hægt að fletta tímaritum af safninu, dagblöðum og setja tölvuna í samband. Einnig er ávallt úrval afskrifaðra bóka sem fólk getur kippt með sér. 

Sjá yfirlit yfir aðstöðu í öllum menningarhúsum Borgarbókasafnsins.