Elif Shafak

Bókmenntahátíð í Reykjavík | Elif Shafak

Næst þegar þú gengur fram hjá trjám, hægðu þá á þér og hlustaðu. Ef tré hefðu rödd, hvað myndu þau segja? 

Tyrkneski rithöfundurinn Elif Shafak (f. 1971) hlaut Alþjóðleg bókmenntaverðlaun Halldórs Laxness í ár og tók við viðurkenningunni laugardaginn 11. september við hátíðlega athöfn í Veröld Vigdísar. Þetta er í annað sitt sem verðlaunin eru veitt og eru þau hluti af Bókmenntahátíð í Reykjavík, sem haldin var dagana 8.-11. september. 

Elif Shafak er baráttukona fyrir mannréttindum, búsett í Bretlandi og hefur gefið út 19 bækur, þar af 12 skáldsögur. Verk hennar hafa verið gefin út á 55 tungumálum og hafa hlotið fjölda verðlauna og viðurkenninga. Hún er með doktorsgráðu í stjórnmálafræði og hefur kennt í háskólum víða.

Fyrstu verk Shafak skrifaði hún á tyrknesku en síðar hóf hún að skrifa á ensku. Hún er sterk feminísk rödd sem myndar brú milli vesturs og austurs. Umfjöllunarefni Shafak eru af ýmsum toga; kvenréttindi, málefni hinsegin fólks, að gefa fólki og málefnum rödd sem þurfa jafnvel að berjast fyrir áheyrn og tilverurétti. Minningar skapa einnig stórt hlutverk í skáldskap hennar.

Á Borgarbókasafninu eru til bækur eftir Shafak og þar á meðal tvær skáldsögur hennar sem hafa komið út í íslenskri þýðingu. Heiður í þýðingu Ingunnar Ásdísardóttur, 2014 og nýjasta skáldverk hennar 10 mínútur og 38 sekúndur í þessari undarlegu veröld, sem kom út í þýðingu Nönnu Þórsdóttur á þessu ári. Sagan segir frá lífi vændiskonu í Istanbúl og var þetta verk meðal annars tilnefnt til Booker-verðlaunanna.

 

 

Bókmenntir geta gefið þögninni merkingu og raddlausum rödd, eins og til dæmis trjám og skógum sem gefa líf. Í skáldskap getur hið ósýnilega  orðið sýnilegt. Shafak segir tengslaleysi og doða vera að stía mannfólki og menningarheimum í sundur og þar með eyða veröldinni. Sögur sameina, skapa innsýn og skilning á mannlegri reynslu, í fortíð, nútíð og framtíð.

 

 

Mánudagur 30. ágúst 2021
Flokkur
Materials