Vigdis Hjorth

Bókmenntahátíð í Reykjavík | Vigdis Hjorth

 

Sannleikur í skáldskap og margslungin mörk veruleikans 

Vigdis Hjorth (f. 1959) er gestur á Bókmenntahátíð í Reykjavík í haust. Hún ólst upp í Osló og lærði heimspeki, bókmenntafræði og stjórnmálafræði. Hún hefur gefið út fjölda skáldsagna og barnabóka og unnið til verðlauna fyrir verk sín.

Arv og miljø frá árinu 2016 er skáldsaga sem hefur vakið hvað mesta athygli vegna deilu sem upphófst í fjölskyldu hennar í kjölfar útgáfunnar. Verkið hefur því vakið uppnám og umræðu um hvað er sannleikur í skáldskap. Hjorth segir frásögnina ekki vera sjálfsævisögulega þó að gefið sé í skyn að skáldsagan sé að hluta til byggð á lífi höfundarins. Sagan er sögð í fyrstu persónu og segir brotakennda sögu fjölskyldu. Sögupersónan Bergljót stendur í erfðadeilu við fjölskyldu sína og gerir upp ofbeldi æskuára sinna. Áföll æskunnar dvelja í leyndarhjúpi og eru jafnvel falin frá meðvitund Bergljótar, en sársauki eftir ofbeldi og traustsrof býr innra og birtist bæði henni sjálfri og lesendum í frásagnarbrotum og endurtekningum. Skáldsagan Arv og miljø hefur verið þýdd á fjölda tungumála en kom út í enskri þýðingu sem Will and Testament árið 2019.

Skrif eru aldrei hlutlaus. Í einhverjum skilningi er alltaf verið að reyna að höndla sannleikann í skáldskap, en spurningin er hvaða sannleika. Hér má lesa eitt af fjölmörgum viðtölum við höfundinn um þetta umtalaða skáldverk, þar sem mörk skáldskapar og veruleika ber á góma og einnig norski höfundurinn Karl Ove Knausgård og verk hans Min Kamp. Eldfimt efni sem bæði hrífur og skekur líf fólks.

 

Hér að neðan gefur að líta úrval bóka eftir Hjorth sem hægt er að lána á Borgarbókasafninu.

 

 

 

Föstudagur 3. september 2021
Flokkur
Materials