Drífa Thoroddsen og Brynjar Jóhannesson
Drífa Thoroddsen og Brynjar Jóhannesson

Ljóðaslamm 2013

Þema: BILUN

Ljóðaslamm Borgarbókasafns var haldið í sjötta sinn á Safnanótt, föstudaginn 8. febrúar, en slammið hefur verið fastur liður í dagskrá Vetrarhátíðar frá árinu 2008. Í ljóðaslammi keppir ungt fólk á aldrinum 15-25 ára í orðlist með frjálsri aðferð, þar sem áhersla er ekki síður lögð á flutninginn en orðið sjálft.

Keppnin var fjölbreytt, forviðandi og alltmöguleg að vanda. Þemað í ár var Bilun og þó að með því væri örlögunum vissulega storkað gekk kvöldið glimrandi vel fyrir sig; keppendur teygðu formið á ýmsa kanta og nálguðust þemað hver á sinn hátt.

Sigurvegarar kvöldsins voru þær Sólveig Matthildur Kristjánsdóttir, Laufey Soffía Þórsdóttir og Margrét Rósa Dóru- Harrysdóttir sem saman skipa hljómsveitina Kælan mikla. 

Kynnir kvöldsins var Ugla Egilsdóttir, sem sté auk þess fram með gítar og söng meðal annars um reykvískt hatur og lyfjagjöf í Malasíu. Gestur slammsins í ár var hinni þýski Christian Ritter sem sagði sögur af tölvuraunum móður sinnar og dauðleika allra hluta, auk þess sem hann tók hressilega skorpu á móðurmáli sínu, sem gekk að vonum vel í þýskumælandi áhorfendur. Loks komu fram sigurvegarar slammsins í fyrra, hópurinn NYIÞ, með atriðin Til eru hræ og Hatið þá, Guð og helgir englar allir.

Dómnefnd skipuðu þau María Þórðardóttir, Óttarr Proppé, Ragnheiður Eiríksdóttir, Stefán Máni og Úlfhildur Dagsdóttir.

 

Kælan mikla: Siguratriði þeirra var ljóðabræðingurinn Ætli það sé óhollt að láta sig dreyma? en þar braust Laufey um í geðrifnum texta Sólveigar um svarta svani, líkamnaða þrúgun og drottningadraumóra við trommu- og bassaundirleik stalla sinna.

 

Drífa Thoroddsen og Brynjar Jóhannesson með Framtíðar brot úr minni smokkfisks, svarthvítri heimsendasýn þar sem brotin ský spúa gleri og drullu yfir biðröð í raftækjaverslun.

 

Þriðja sætið hlaut Valgerður Þóroddsdóttir, en ljóð hennar 101 nótt lýsti því hvernig hún grefst, bæði óeiginlega og bókstaflega, undir verkum mikilla skálda sem náðu að temja bilunina og beita fyrir sköpunarverk sín.

Flokkur
Merki
UppfærtFöstudagur, 2. september, 2022 13:28