Póetík í Reykjavík - 10 ára afmæli Bókmenntaborgarinnar

Í haust fagnaði Reykjavík tíu ára afmæli sem Bókmenntaborg UNESCO. Það var á bókamessu í Frankfurt árið 2011, þegar Ísland var heiðursgestur messunnar, sem tilkynnt var að Reykjavík hlyti þennan eftirsóknaverða titil, Bókmenntaborg UNESCO, þá fimmta borgin í heiminum. Í dag er Reykjavík meðal 39 Bókmenntaborga og hefur samstarf Bókmenntaborga UNESCO opnað ný tækifæri fyrir íslenska orðlist í alþjóðlegu samhengi og ný tækifæri fyrir rithöfunda hafa skapast með gjöfulu samstarfi.

Í tilefni af tíu ára afmælisbarni var öllum eins árs börnum send afmælisgjöf til að minna á töfra lesturins. Þá var gefin út bókin Póetík í Reykjavík. Erindi 14 höfunda sem er eins og nafnið gefur til kynna erindi fjórtán höfunda um gildi og stöðu orðlistarinnar í íslensku samhengi, eins og segir í formála bókar. Spurningarnar sem höfundarnir fengu voru: Hvað eru bókmenntir? Hver er tilgangur þeirra? Hvers virði eru bókmenntir? Fyrir hverja eru þær skrifaðar? Meiningin var ekki að knýja fram svör við þessum stóru spurningum heldur að vekja upp hugleiðingar um skáldskapinn og fá innsýn inn í sköpunarferli höfundanna.

 

Niðurstaðan er veglegt og fjölbreytt rit upp á nær 400 síður, fjórtán gefandi hugleiðingar um skáldskapinn og tengsl við skrif, innri og ytri heim, eftir eftirfarandi rithöfunda:

Auður Ava Ólafsdóttir, Hallgrímur Helgason, Margrét Bjarnadóttir, Mazen Maarouf, Steinar Bragi, Steinunn Sigurðardóttir, Gerðu Kristný, Yrsa Sigurðardóttir, Bergrún Íris Sævarsdóttir, angela rawlings, Bergsveinn Birgisson, Hildur Knútsdóttir, Alexander Dan, Elías Knörr.

 

Hægt er að glugga í ritið hér og þar eða lesa það í einni beit, allt eftir áhuga. Hér gefur að líta nokkur brot og gullkorn úr ritinu sem er í senn forvitnilegt, fyndið, persónulegt, fagurfræðilegt, einlægt, kaldhæðið - játningar og spekúlasjónir, efniviðurinn fer víða.

 

„Egóið er óseðjandi monster.“ (Hallgrímur Helgason, Lókmenntalíf, bls. 55)

 

„Sam langar til að hitta íslenska rithöfunda en það er enginn í sjónmáli. Við höfum reynt í þrjá daga. Göngum á milli safna, kaffihúsa, bókabúða, komum við á Borgarbókasafninu, í matvörubúðum og búðum sem selja notaða hluti. Hvaða höfundur sem er sem ég kannaðist við myndi duga, en allt kemur fyrir ekki. „Þeir hljóta að vera að skrifa,“ segi ég, en ef það eru meira en 33.000 skráðir höfundar á landinu, fleiri en allir höfundar í Miðausturlöndum samanlagt, getur ekki verið að við rekumst ekki á neinn þeirra. „Þú virðist bara ekki eiga neina vini hérna, félagi.“ „Ég hef hitt fullt af fólki og langar ekkert til að hitta fleiri,“ segi ég bitur. Það er á þessu augnabliki sem við komum inn í bókakaffið Iðu og hann tekur upp bókina mína og leggur hana svo frá sér án þess að líta á eina einustu síðu.

            Þar sem mér líður eitthvað undarlega segi ég Sam að Reykjavík sé besta UNESCO borgin í heiminum. „Veistu af hverju? Hún er bara búbbla þar sem þú sérð andlit annarra höfunda endurvarpast í bakgrunninum, í speglinum þínum. Þannig að þú verður að skrifa ef þú getur skrifað, annars hittirðu sjálfan þig fyrir í bók eftir einhvern annan.“ Hann segir að ég sé paranojaður gaur og hlær. Ég segi honum að mér sé alvara, allir séu með bókablæti. Þeir sem lesa og þeir sem gera það ekki.“ (Mazen Maarouf, Minnisbók húsvarðar, bls. 135-136)

 

„Blár er táknmynd frelsis og allt myndmálið í bláu meistaraverki Kieslowskis hverfist um eina margræða hugmynd: frelsið og spurninguna hvers virði frelsið sé þeim sem telur sig ekki hafa neitt til að lifa fyrir, sem misst hefur allt sem gaf lífinu gildi? Niðurstaða kvikmyndarinnar Blár er sú að frelsi sé ekki að geta gert allt sem maður vill, heldur sé frelsi án kærleika, án skuldbindinga og án tengsla við annað fólk og minningar einskis virði og snúist fyrr en varir upp í andhverfu sína; einsemd, þjáningu, reiði, eftirsjá og afneitun.“ (Auður Ava Ólafsdóttir, Þú veist hverju þú leitar að þegar þú finnur það, bls. 23)

 

„Skáldið hafnar heiminum til þess að hafna í eigin skynjun og umbreyta henni í tjáningu. Samband höfundar og samfélags er flókið fyrirbæri. Þetta er líklega fallegasta slepptu-mér-haltu-mér samband sem lífið þekkir.“ (Hallgrímur Helgason, Lókmenntalíf, bls. 54-55)

 

„„Vinnur þú hérna?“ „Ég geri það,“ svara ég, „þetta er nafnspjaldið mitt, sjáðu, hér er nafnið, og myndin.“ „Svo þú ert húsvörðurinn,“ spyr hann. „Já, en ekki segja að þú hafir hitt mig,“ segi ég, „hérna, sjáðu orðið rithöfundur, það þýðir húsvörður.““  (Mazen Maarouf, Minnisbók húsvarðar, bls. 120)

 

„Konur máttu ekki skrifa. Konur voru ekki til.

Í dag les enginn bækur nema konur og meirihluti rithöfunda eru konur.“ (Hallgrímur Helgason, Lókmenntalíf, bls. 65)

 

„Hugurinn gerir rithöfundi kleift að rata þangað sem hann kýs og vera staddur á fleiri en einum stað í einu, en hann er líka í vissum skilningi ferðalangur í veruleika bóka sinna, gestkomandi í eigin verki. Því fylgir sú tilfinning að þegar bók er lokið, getu rhún verið höfundi jafn framandi og ef hún hefði verið skrifuð af einhverjum öðrum“. (Auður Ava Ólafsdóttir, Þú veist hverju þú leitar að þegar þú finnur það, bls. 33)

 

„Í stuttu máli, þótt ekki séu allir rithöfundar eru til hundruð skáldaðra útgáfa af manni. Myndin sem maður geymir af sjálfum sér er jafnvel skálduð.“ (Mazen Maarouf, Minnisbók húsvarðar, bls. 122)

 

„Hvenær verður maður frjáls af þjóðerni sínu? Hvenær verður maður frjáls af kyni sínu? Hvenær verður maður frjáls af köllun sinni? Hvenær getur maður byrjað að skrifa í alvörunni?“ (Hallgrímur Helgason, Lókmenntalíf, bls. 83)

 

„Það segir okkur að skáldsaga er aldrei sagan öll, heldur brot og brotabrot af ímynduðum veruleika en líka að það er ekki til saklaus texti.“ (Auður Ava Ólafsdóttir, Þú veist hverju þú leitar að þegar þú finnur það, bls.  28)

 

„Rithöfundurinn Tolstoj sagði að höfundur væri sá sem á göngutúr að kveldi heyrði glaum hermanna frá skála og flýtti sér heim að skrifa þriggja binda verk um styrjaldir.  – Af hverju fór höfundurinn í göngutúr?

            Í goðsögunni um Narcissus, sem liggur á bakka tjarnarinnar heillaður af eigin spegilmynd, kemur fram að aðdáun N. er háð því að hann þekki ekki andlit sjálfs sín. Skriftir eru effektífasta leiðin til að þekkja ekki sjálfan sig.

            Hvað með áföll? Varð höfundurinn sem fór í göngutúrinn fyrir áfalli heima hjá sér?

            Ég trúi því að fólk sem verður fyrir áföllum bæli þau, og eftir því sem bælingin er meiri verður endursviðsetning þeirra – úrvinnslan – kræklóttari og líkari skáldskap.“ (Steinar Bragi, Kenning, bls. 147)

 

„Í því sambandi dettur mér í hug lítil saga af Sigurjóni Ólafssyni myndhöggvara, þar sem hann útskýrir með sínu nefi að sannleikur listarinnar felist í lyginni.“ (Auður Ava Ólafsdóttir, Þú veist hverju þú leitar að þegar þú finnur það, bls. 30)

 

„Þegar ég segi að handverkið hjá mér sé ofið inn í alla sköpunina, á ég ekki síst við það að hugmyndir kvikna endalaust kringum allt hróflið og skipta sköpum fyrir endanlega útkomu.

            Stór hluti af töfrum tungumálsins eru töfrar orðanna og mér finnst það hljóti að vera eitt aðalstarf rithöfunda og skálda að leysa þessa töfra úr læðingi. Sjálf er ég mótuð af því að mitt höfundarupphaf var lengi vel í ljóðinu. Fyrstu tíu árin sem ég skrifaði fór ekki annað á blað frá mér en ljóð. Sá langi þráður hefur aldrei slitnað. Meðfram skáldsögunni hafa alltaf orðið til ljóð, útgefin eða ekki. Ég lít svo á að ég skrifi skáldsögur með aðferðum ljóðskáldsins. Sem er sársaukafullt og tímafrekt, þar sem hvert einasta orð skiptir máli. En ég vildi þó ekki hafa það örðuvísi.“ (Steinunn Sigurðardóttir, Orðin, orðin, orðin, bls. 166-7)

 

„Það kemur fyrir í umræðu um bókmenntir að veruleikinn er uppfærður og kallaður sannleikur“. (Auður Ava Ólafsdóttir, Þú veist hverju þú leitar að þegar þú finnur það,  bls. 29)

 

„„Íslendingar sýndu bókinni lítinn áhuga.“ „Er það virkilega?“ „Já, mér hefur ekki verið boðið á neinn viðburð hér til að tala um hana. Ég held að fólk, og þar með talið bókmenntafólk, hafi meiri áhuga á mér sem flóttamanni. Flóttamenn selja,“ segi ég. Þetta hljómar auðvitað hræðilega og Sam spyr mig hvort ég hafi lesið bók sem heitir eitthvað á borð við „Hvernig á að komast út úr kanínuholunni í manni sjálfum“. Ég hef ekki lesið hana.“ (Mazen Maarouf, Minnisbók húsvarðar, bls.128)

 

„Mig langar að lokum að beina sjónum að þýðingarmesta greinarmerki skáldsögunnar, því sem Töfrafjallið endar á – spurningarmerki. Mest viðeigandi greinarmerki þegar skáldsaga á í hlut, því hún ber sannleikann ekki utan á sér, heldur er hann falinn, hann er innri sannleikur. Verkefni lesandans er að grafa hann upp, að leita að svörum sjálfur. Opna augun enn og aftur, í leit að merkingu verksins, og orðanna.“ (Steinunn Sigurðardóttir, Orðin, orðin, orðin, bls. 178)

 

„Allt tal um sannleika, sakleysi og hluti í sínu tærasta formi er háll áll. Sumir vilja varla heyra minnst á sannleikann í samhengi listarinnar – hvað þá einlægni. Sumir eru sannastir í því sem þeir upphugsa en verða tilgerðarlegir þegar þeir reyna að vera persónulegir; eru sannastir þegar þeir skálda, mála abstrakt eða geómetrískt eða semja heilu dansverkin, spor fyrir spor.“ (Margrét Bjarnadóttir, Ein mínúta í lífinu, bls. 107)

 

„Þessi óbrúanlega gjá á milli raunheims og skáldaðra veralda verður að mínu mati öflug ástæða til að vekja þorsta eftir ljóðvirkri fegurð og þrá að búa í sýndarlénum Bókmenntanna meira en nokkurn tíma fyrr.“(Elías Knörr, Ljóðvirkni, bls. 381)

 

„Listin sigrar allt, tvímælalaust“. (Hallgrímur Helgason, Lókmenntalíf, bls. 57)

 

Brot úr bókinni: Póetík í Reykjavík. Erindi 14 höfunda. Bókin er unnin í samstarfi við Reykjavík Bókmenntaborg og Benedikt bókaútgáfu. Ritstjóri er Kjartan Már Ómarsson.

Flokkur
UppfærtFöstudagur, 7. janúar, 2022 13:58