Ritþingið fullkomnað!

Margt var um manninn og spaugilegur andi sveif yfir ritþing í Gerðubergi síðast liðin laugardag. Stefnumót við Braga Ólafsson: Á horni Bayswater Road og Lækjargötu varð að veglegri skáldskaparveislu með slatta af góðum húmor. Fjallað var vítt og breitt um feril Braga, skáldskap hans, persónugallerí, fagurfræði og ólík skáldskapar- og listform. Það voru þau Guðrún Lára Pétursdóttir, Kristín Svava Tómasdóttir og Einar Falur Ingólfsson sem stigu inn í skáldskap Braga, spekúleruðu og spurðu hann um skrifin. Bragi sagðist verða mjög órólegur ef hann skrifar ekki nær daglega. Þegar hann var spurður hvort hann hefði jafnvel byrjað í vitlausri listgrein, þ.e. tónlistinni, þá svaraði hann því neitandi og eitthvað á þá leið að skrifin hafi verið upphafið. Hann var meðal annars spurður um  áhrifavalda og næstu verk í vinnslu og nefndi þá Harold Pinter, en hann hefur einmitt þýtt leikverk eftir Pinter. Bragi vildi ekki hafa of mörg orð um framtíðina en líklega er von á skáldsögu á næsta ári.

Lögð var mikil og góð vinna í skipulag fyrir ritþingið. Veglegt kort unnið þar sem sjá má yfirlit yfir skáldskaparheim Braga og ferðir persóna um stræti. Auk umræðna þá fengu gestir að hlýða á tónlist, leiklist, ljóðlist. Maríanna Clara Lúterhersdóttir braut reglulega upp spjallið með ljóðalestri og flutningi upp úr Samkvæmisleikjum. Eggert Þorleifsson lék ógleymanlegt brot úr Gestabókinni. Una Sveinbjarnardóttir spilaði hádramtískt og stórkostlegt tilbrigði við tónverk eftir Markús Geirharð, sem lesendur Braga kannast eflaust við. Einnig var á staðnum sýning á persónulegum hlutum, gömlum handritum úr fórum skáldsins og fleiru sem tengist sköpunarferlinu. Þá voru ljóð í upplestri höfundar spiluð á bandi og útvarpsverk í hléi.

RÚV hljóðritaði ritþingið og mun vinna útvarpsþátt upp úr upptöku sem verður síðar á dagskrá Rásar eitt.

Eftir þingið bauð Borgarbókasafnið til móttöku á safninu og gestir og þátttakendur skáluðu fyrir skáldskap og góðum degi.

Takk fyrir komuna!

 

Flokkur
UppfærtÞriðjudagur, 7. september, 2021 11:03