Beint í efni

Hjartnæm hinsegin ástarsaga

Hjartnæm hinsegin ástarsaga
Höfundur
Alice Oseman
Útgefandi
Forlagið
Staður
Reykjavík
Ár
2023
Flokkur
Unglingabækur,
 Myndasögur
Höfundur umfjöllunar
Þorvaldur S. Helgason

Hjartastopp (e. Heartstopper) er myndasögusería teiknuð og skrifuð af breska höfundinum Alice Oseman. Serían hefur notið fádæma vinsælda víða um heim síðan hún kom fyrst út í Bretlandi árið 2019, til að mynda framleiddi Netflix streymisveitan sjónvarpsþáttaseríu eftir henni 2022 og nýlega komu fyrstu tvö bindin út í íslenskri þýðingu Erlu Elíasdóttur Völudóttur. Hjartastopp segir frá bresku unglingsstrákunum Charlie Spring og Nick Nelson sem kynnast í Truham-unglingaskólanum fyrir drengi og verða ástfangnir þrátt fyrir að vera gjörólíkar týpur.

Nördar og töffarar

Charlie Spring, sem er aðalpersóna bókarinnar, er 14 ára 10. bekkingur. Hann er tilfinningaríkur og listrænn strákur sem gengur vel í skóla og er auk þess hæfileikaríkur trommari. Charlie er eins konar 21. aldar fulltrúi „nördanna“ svo seilst sé í staðalmyndir unglingabókmennta og er auk þess opinberlega samkynhneigður í mjög svo heterónormatívu umhverfi drengjaskólans sem gerir hann tvöfalt jaðarsettan. Við upphaf sögunnar á Charlie í leynilegu ástarsambandi við Ben Hope, hrokafullan 11. bekking sem notar Charlie eingöngu til að svala fýsnum sínum en hefur engan áhuga á alvöru sambandi, enda er hann sjálfur í skápnum.

Stuttu síðar kynnist Charlie svo Nick Nelson, sem er einnig í 11. bekk, og með þeim myndast strax vinátta. Nick Nelson er fulltrúi „töffaranna“, hávaxinn og ljóshærður ruðningskappi sem á helling af vinum sem sumir hverjir jaðra við að vera hrekkjusvín. Nick býður Charlie að ganga til liðs við ruðningslið skólans eftir að hann sér hversu fótfrár Charlie er og eftir það verða þeir nánast óaðskiljanlegir. Fljótlega fer hrifning að myndast á milli strákanna en eins og svo oft er með unglinga á þessum aldri er rómantíkin auðsjáanleg öllum nema þeim sem eiga hlut að máli.

Charlie og Nick eru hentugar aðalpersónur fyrir unglingarómans eins og Hjartastopp en þeir eru eiginlega of fullkomnir og góðir til að vera virkilega áhugaverðir. Nick er sennilega áhugaverðari persónan af þeim tveimur og barátta hans við að átta sig á eigin kynhneigð ljáir sögunni dramatíska framvindu í fyrstu tveimur bindunum. Hann er hins vegar svo góður og réttsýnn að það jaðrar við að vera óþolandi. Charlie þjáist einnig af einum of miklum fullkomleika, er afburða námsmaður sem er einnig frábær tónlistarmaður og náttúrulega góður í íþróttum. Gaman hefði verið að fá aðeins meiri dýpt og breyskleika í þessar aðalpersónur en hugsanlega kemur það fram í síðari bindum seríunnar.

Langþráð spennulosun

Í fyrstu eiga Charlie og Nick erfitt með að viðurkenna eigin tilfinningar, Charlie vegna þess að hann telur Nick vera gagnkynhneigðan og Nick vegna þess að hann er ekki búinn að átta sig á eigin tvíkynhneigð. Það er einstaklega krúttlegt að fylgjast með ást Charlies og Nicks blómstra en framvindan er þó einkar hæg og þegar þeir loksins kyssast við lok fyrsta bindis er búið að undirbyggja það svo vel að augnablikið virkar fremur eins og langþráð spennulosun heldur en epíski ástarfundurinn sem höfundurinn reynir að skapa með því að verja heilum 10 blaðsíðum í hann.

Í öðru bindi Hjartastopps fáum við svo að fylgjast með Charlie og Nick verða að alvöru pari og smám saman byrja að kynna hvor aðra fyrir fjölskyldum sínum og vinum. Ástin er þó auðvitað ekki án áskorana og þrátt fyrir að strákarnir séu mjög ástfangnir hvor af öðrum glíma þeir báðir við kvíða og áhyggjur tengt ástinni, sem er auðvitað fullkomlega eðlilegt enda vart til sá unglingur sem er ekki stressaður yfir tilhugalífinu.

Kvíðavaldandi rússíbanareið

Alice Oseman er flink í því að skrifa unglingarómantík enda virðist sú bókmenntagrein vera hennar ær og kýr ef ritaskrá hennar er skoðuð. Hjartastopp er einkar raunsönn lýsing á því hvernig það er að vera ástfanginn unglingur í menntaskóla og jafnvel þótt um sé að ræða hinsegin ástarsögu þá ættu gagnkynhneigðir lesendur einnig að geta samsamað sig með raunum þeirra Charlies og Nicks. Því eins og allir vita sem hafa einhvern tímann verið ástfangnir unglingar þá snýst ástin á þeim óreiðukennda aldri jafn mikið um að kynnast sjálfum sér eins og kynnast þeim sem maður er ástfanginn af.

Oseman fangar fullkomlega þá kvíðavaldandi rússíbanareið sem fyrsta ástin er (burt séð frá kyni og kynhneigð) og skapar úr því fallega og hjartnæma ástarsögu. Hjartastopp lýsir þó einnig vel þeim áskorunum sem eru sértækar hinsegin fólki eins og það að koma út úr skápnum. Þrátt fyrir að sagan verði aldrei ljót þá hikar Oseman ekki við að fjalla um þá fordóma sem Charlie og Nick þurfa að glíma við, bæði frá samfélaginu og sinni eigin félagsmótun. Þótt það sé ekki sýnt í bókinni er því lýst hvernig Charlie lenti í hómófóbísku einelti frá skólafélögum sínum eftir að hann var neyddur til að koma út úr skápnum áður en sagan hefst. Þá lendir Nick einnig í aðkasti frá vini Charlie, Tao, sem sakar hann um að vera gagnkynhneigðan leiðindagaur sem sé einungis að leika sér að tilfinningum vinar síns, þótt það sé auðvitað ekki jafn alvarlegt og eineltið sem Charlie gekk í gegnum.

Ungir hinsegin lesendur munu eflaust tengja vel við ástarævintýri Charlies og Nicks og senan þar sem Nick eyðir löngum tíma í að gúggla hluti á borð við „er ég samkynhneigður?“ og taka Buzzfeed spurningapróf um kynhneigð sína hittir beint í hinsegin hjartað.

Vandaðar og skýrar teikningar

Alice Oseman er bæði höfundur og teiknari Hjartastopps og eru teikningar hennar bæði vandaðar og skýrar. Oseman tekst vel upp með myndræna frásögn sögunnar og karaktereinkenni aðalpersónanna tveggja, Charlies og Nicks, skína vel í gegn í teikningum hennar. Aðrar persónur bókarinnar svo sem hinn skeptíski vinur Charlies, Tao, og ofdekraði og freki vinur Nicks, Harry, eru einnig mjög vel teiknaðar með skýrum karaktereinkennum svo auðvelt er að henda reiður á persónugalleríi sögunnar. Þá er einnig að finna skemmtilegt „aukaefni“ í lok hvers bindis svo sem karakterstúdíur og dagbókarfærslur frá aðalpersónunum.

Mynduppbygging Hjartastopps minnir um mjög á kvikmynd, enda fer öll frásögnin fram í þriðju persónu og notast höfundur reglulega við nærmyndir af söguhetjum sínum. Þá geta áhugasamir lesendur leikið sér að því að bera ramma myndasögunnar saman við senur sjónvarpsþáttanna.

Teiknistíll Oseman minnir að sumu leyti á japanskar myndasögur - manga, en teikningar hennar eru allar svarthvítar og dregnar með skýrum línum, líkt og venjan er í manga. Þá hefur einnig myndast rík hefð í Japan fyrir myndasögum sem fjalla um hinsegin ástir karlmanna en eru skrifaðar sérstaklega fyrir konur af konum, þessi undirgrein manga er kölluð yaoi eða Boys’ Love og hefur Netflix útgáfan af Hjartastopp raunar verið gagnrýnd af aðdáendum fyrir að vera ranglega flokkuð sem Yaoi af Google-leitarvélinni.[1]

Þýðing Erlu Elíasdóttur Völudóttur er sómasamlega unnin en heldur bókstafleg á köflum og stundum virkar málfar þeirra Charlies og Nicks full formlegt fyrir 14-16 ára unglinga.

Jarðbundin ástarsaga

Hjartastopp er falleg og vönduð saga fyrir ungmenni af öllum kynjum og kynheigðum. Samkynhneigðir lesendur munu án efa geta samsamað sig ástarævintýrum Charlies og Nicks og þá er jákvætt að í bókinni er einnig að finna persónur sem eru lesbíur og trans. Þá ættu bækurnar einnig hæglega að geta höfðað til gagnkynhneigðra lesenda sem hafa gaman af fallegum og jarðbundnum ástarsögum.

Það er einstaklega gleðilegt að sjá hinsegin bókmenntir brjótast inn í meginstraum ungmennabókmennta og hvað þá í formi sem lengi hefur verið jafn jaðarsett og myndasögur!

 

[1] https://www.hitc.com/en-gb/2022/04/28/what-does-yaoi-mean-heartstopper-fans-outraged-at-googles-genre/