OKið | Nýtt rými fyrir ungmenni!

Þann 30. nóvember opnar OKið, nýtt rými fyrir ungmenni í Gerðubergi. Þar verður hægt að læra, skapa, fikta, eiga í samtali og einfaldlega hanga. Rýmið verður lokað fullorðnum og yngri börnum og boðið verður upp á ýmsa dagskrá fyrir ungmenni, skapaða af ungmennum. OKið er þátttökuverkefni og hafa ungmenni úr Breiðholti tekið virkan þátt í þróun og framkvæmd verkefnisins.


Norður; stafræn skáldsaga um umhverfismál
Rýmið verður tileinkað ungu fólki um ókomna tíð og verður unnið með ýmis þemu í ár í senn. Árið 2020 verður þemað byggt á Norður, stafrænni skáldsögu danska höfundarins Camillu Hübbe og myndlýsarans Rasmus Meisler. Í sögunni um stúlkuna Norður nýta höfundarnir sér sameiginlegan menningararf Norðurlandanna, norrænu goðafræðina. Þar er tekist á við stórar spurningar og alvarlegar áskoranir sem blasa við ungmennum í dag, s.s. hamfarahlýnun af mannavöldum og áhrif þeirra á lífríki jarðar og framtíð komandi kynslóða. Einnig tekst aðalpersónan á við sjálfa sig og gengur í gegnum krefjandi þroskaferli um leið og henni er ætlað að bjarga heiminum. Hægt er að nálgast söguna með því að smella á myndina hér neðst á síðunni. 

Leiðsagnir og skólaheimsóknir
Boðið verður upp á skólaheimsóknir fyrir ungmenni í 7.-10. bekk og er ætlunin að kennarar og frístundastarfsfólk geti nýtt aðstöðuna með fjölbreyttum hætti og tengt þvert á ólíkar námsgreinar, s.s. íslensku, náttúrufræði, samfélagsfræði, dönsku, forritun, myndlist, hönnun og lífsleikni. Skáldsagan Norður er aðgengileg með því að smella á myndina hér að neðan. Þar er hægt að er kynnast stelpunni Norður og þeim heimi sem blasir við henni. Bókin er opin öllum í landsaðgangi í gegnum heimasíðu Borgarbókasafnsins og hægt er að lesa hana á íslensku, ensku, dönsku og öðrum norðurlandamálum. Einnig er hægt að hlusta á hana í upplestri.

OKið verður einnig opið alla virka daga milli kl 14:00 -18:00. Boðið verður upp á viðburði, smiðjur, heimanámsáðstoð, sem og opna aðstöðu til að skapa og fikta.

Opnunarhátíð 30. nóvember
Laugardaginn 30. nóvember verður haldin opnunarhátíð fyrir ungmenni á aldrinum 12-16 ára milli kl 18 og 20. Rapparinn Flóni treður upp, auk þátttakenda í Skrekk og DJ Vincent heldur uppi stuðinu fram á kvöld. Boðið verður upp á pizzur, hamborgara og snakk á kaffihúsinu Cocina Rodriguez. Hátíðin er að sjálfsögðu vímuefnalaus.

Á meðan á hátíðinni stendur eru foreldrar velkomnir í kaffi og bakkelsi í rólegri stemningu inni á bókasafninu.

Frítt er á hátíðina en takmarkaður fjöldi miða er í boði. Miða má nálgast í miðasölu OKsins, á 2. hæð Gerðubergs 20. nóvember milli kl. 15:00-18:00.

OKið er styrkt af Barnamenningarsjóði. 

Frekari upplýsingar veitir: 
Guðrún Baldvinsdóttir, verkefnastjóri bókmennta
gudrun.baldvinsdottir@reykjavik.is
S: 661-6178 

 

Veffrásögn-borði

þri, 09-04-2019 18:02
Flokkur
Merki