NORD forsíða
NORD forsíða

Sköpunarheimur NORD | Upplifunarrými

Í lok árs 2019 og út árið 2020 verður opið nýtt rými fyrir ungmenni í sýningarsal Gerðubergs. Þar verður hægt að læra, skapa, fikta, eiga í samtali og einfaldlega hanga. Rýmið verður lokað fullorðnum og yngri börnum og boðið verður upp á ýmsa dagskrá fyrir ungmenni - og skapaða af ungmennum. 

Sköpunarheimur NORD á rætur að rekja til Danmerkur og er unninn út frá stafrænni skáldsögu danska höfundarins Camillu Hübbe og myndlýsarans Rasmus Maesler. Útgangspunktur sköpunarheimsins er að víkka út ramma hefðbundinna bókmennta, að miðla sögu í gegnum ólíka miðla og ná þannig til breiðari hóps en áður. Í sögunni um stúlkuna Nord nýtir höfundurinn sér sameiginlegan menningararf Norðurlandanna, norrænu goðafræðina. Þar er tekist á við stórar spurningar og alvarlegar áskoranir sem blasa við ungmennum í dag, s.s. loftslagsbreytingar af mannavöldum og áhrif þeirra á lífríki jarðar og framtíð komandi kynslóða. Einnig tekst aðalpersónan á við sjálfa sig og gengur í gegnum krefjandi þroskaferli um leið og henni er ætlað að bjarga heiminum. 

NORD er þátttökuverkefni þar sem ungmennum á aldrinum 12-16 ára gefst tækifæri til upplifa, skapa, fikta, lesa og miðla hvort sem þau kjósa að gera það í einrúmi eða í samvinnu við aðra. Söguheimurinn býður upp á ýmsa miðlunarmöguleika í leik og kennslu og ætlunin er að kennarar og frístundastarfsfólk geti nýtt aðstöðuna með fjölbreyttum hætti og tengt þvert á ólíkar námsgreinar, s.s. íslensku, náttúrufræði, samfélagsfræði, dönsku, forritun, myndlist, hönnun og lífsleikni.

Stafræna skáldsagan, sem rýmið byggir á, er aðgengileg með því að smella á myndina hér að neðan. Þar er hægt að er kynnast stelpunni Norður og þeim heimi sem blasir við henni. Einnig er bókin væntanleg í íslenskri þýðingu á pappírsformi í lok árs hjá forlaginu Dimmu. 

Sköpunarheimur NORD er styrktur af Barnamenningarsjóði. 

Frekari upplýsingar veitir: 

Guðrún Baldvinsdóttir, verkefnastjóri bókmennta
gudrun.baldvinsdottir@reykjavik.is
S: 661-6178 

Veffrásögn-borði

Eftir Borgarbókasafn (óstaðfest)
Þri, 09-04-2019 18:02
Flokkur