Tækni

Verkstæðið í Gerðubergi

Í Gerðubergi má finna spennandi sköpunarrými sem kallast Verkstæðið. Börn og fullorðnir hafa þar aðgang að ýmsum tækjum og tólum til að prófa sig áfram, skapa og uppgötva nýja hluti.

Hvað er í boði?

Hjá okkur eru Raspberry Pi tölvur, Makey Makey, LittleBits, 3D prentari og vínylskeri. Við bætum reglulega við nýjum tækjum og öðrum möguleikum til að skapa og ykkur er alltaf velkomið að kíkja til okkar til að sjá hvað er í boði.

Í tölvunum er hægt taka fyrstu skrefin í forritun, til dæmis í leiknum Scratch sem hentar yngstu börnunum vel. Einnig er hægt að læra grunnhugtök forritunar með því að forrita í Minecraft.

3D prentari

Hægt er að tengjast 3D prentaranum í gegnum tölvu á staðnum, en við hvetjum fólk til að stofna frían reikning og prófa sig áfram á Tinkercad.com til að skapa módel fyrir prentarann og koma með skjalið tilbúið. Best er að koma með .stl skjal á SD korti en einnig er hægt að vista skjalið á Tinkercad eða koma með USB lykil og opna í tölvunni á Verkstæðinu. Aðgangur að 3D prentaranum er ókeypis en nauðsynlegt er að borga fyrir efnisnotkun. Við notum umhverfisvænna PLA plast sem er til í mörgum litum. Hljómar þetta of flókið? Kíkið á Fiktdaga og við útskýrum þetta allt á mannamáli!

Verðskrá fyrir 3D prentarann má finna í almennu gjaldskránni.

Einfalt er að sjá hversu mikið efni/tíma verkefnið kostar áður en prentarinn fer í gang með því að nota ókeypis forritið Cura annaðhvort heima hjá sér eða í tölvunni á bókasafninu. 

Komið á Fiktdaga!

Öllum er frjálst að koma og fikta á Verkstæðinu á afgreiðslutíma í Gerðubergi, svo fremi sem það er laust. Ef þið treystið ykkur ekki til að fikta alein þá hvetjum við ykkur til að koma og fá aðstoð í opnum tímum sem kallast Fiktdagar. Fylgist með viðburðadagatalinu okkar til að sjá upplýsingar um námskeið og Fiktdaga á Verkstæðinu. 

Við höldum oft námskeið og smiðjur fyrir krakka á Verkstæðinu og stundum færum við búnaðinn á milli safna til að halda smiðjur í öðrum menningarhúsum Borgarbókasafnsins. Slíkar smiðjur eru einnig auglýstar í viðburðadagatalinu okkar. Einnig er hægt að skrá sig á póstlistann til að fá tilkynningar um ný námskeið sem eru í boði.

Á bókasöfnunum er líka hægt að finna bækur um alls kyns tækni og tilraunir, bæði á söfnunum sjálfum og í Rafbókasafninu. Þar á meðal er gott úrval af bókum um Minecraft, forritun í Scratch og Python, Sonic Pi, þrívíddarprentun og allt mögulegt annað. Munið að krakkar og unglingar fá ókeypis bókasafnsskírteini til 18 ára aldurs! 

Nánari upplýsingar veitir:
Karl James Pestka
Verkefnastjóri Verkstæðanna
Netfang: karl.james.pestka@reykjavik.is

Materials