Guðrún Helgadóttir rithöfundur

Lífið er eins og mikilvægt tónverk | Minning um Guðrúnu Helgadóttur

Borgarbókasafnið kveður hinn ástsæla rithöfund, Guðrúnu Helgadóttur, og þakkar henni fyrir ævistarf sitt sem hefur gefið og mun halda áfram að gefa börnum og fullorðnum ríkan og skemmtilegan skáldskaparheim. Hún sagðist sjálf vilja opna glugga og hurðir fyrir krakka og gefa þeim útsýni. Á Bókmenntavefnum má lesa æviágrip um Guðrúnu, umfjallanir um höfundinn og bækurnar, rita- og verðlaunaskrá og einlægan og stórskemmtilegan pistil sem hún skrifaði sjálf um eigin skrif árið 2000.

Við birtum hér pistil Guðrúnar Helgadóttur í heild sinni af Bókmenntavefnum:

Af hverju skrifa ég? Mætti ekki alveg eins spyrja: hver er ég eiginlega? Það er skrambi flókið, held ég. Og þó, kannski ekki. Einhverntíma var ég pínulítil stelpa í sjávarplássi, sem mér þótti ljótt. Þar óx ekkert fegurra en njóli. Og grindverkin voru að falli komin. Húsin ómáluð. Elst af tíu systkinum í allt of litlu húsi. En utan við byggðina var holtið og tún með sóleyjum og bláklukkum. Og himinninn yfir. Þar var fallegt. Og þannig átti lífið að vera, fannst mér. Sumt fólk gat haft fallegt hjá sér, sumir ekki. Það fannst mér óréttlátt. Fullorðna fólkið sagði að það væri ríka fólkið sem ræktaði blóm og tré og hefði steinveggi og járnhlið í kringum húsin sín. Mér fannst það engin skýring. Af hverju gerði fátæka fólkið ekki eitthvað til að hafa fínt hjá sér? Það sat bara og drakk kaffi. Ég þoldi það ekki og var þrasgjörn.

„Ég vissi alltaf að Rúna systir ætti eftir að skrifa þríbók um bilað grindverk,“ sagði einn bræðra minna einu sinni. Það var rétt. Það var ljóst frá byrjun. Ég vissi það bara ekki þá. Ég vissi hins vegar að ég var ein inni í mér. Hræðilega ein. Það vissi enginn um mig í þessum stóra heimi. En það skyldu svei mér allir fá að vita af mér. Einsemdin var óbærileg. Besta vinkonan bjargaði ekki öllu þar um, því að það var ekki hægt að tala um svona lagað. Og ég tók mér ýmislegt fyrir hendur til að vekja athygli heimsins á þessari dapurlegu tilveru. Enginn annar myndi hvort sem er gera það. Það var nærtækt að vera dugleg í skólanum, dugleg að sauma út, hekla og prjóna, leika í leikritum. Fólk tæki eftir því. Það var líka hægt að rækta blóm í lóðinni. Þau uxu ágætlega hvað sem fullorðna fólkið sagði. Mér fannst það stundum vitlaust. Og svo var hægt að lifa í eigin heimi, þar sem allt var betra. Miklu betra. Heimi þar sem enginn sagði þetta asnalega orð kotroskin, ef maður sagði eitthvað við þessa bjána. Hluti af þessum undursamlega heimi voru bækur. Íslenskar bækur og útlendar bækur. Bækur um allt milli himins og jarðar. Bækur um sorg og gleði, niðurlægingu og reisn. Bækur um allar tilfinningarnar sem enginn gat talað um. Og einsemdin vék eins og ský fyrir sólu á meðan.

Grindverkin í bænum löguðust smám saman og húsin voru máluð. Núna finnst mér fallegi fæðingarbærinn minn næstum hæðast að mér þegar ég kem í heimsókn. En þá hugsa ég kotroskin: „Hvað sagði ég ekki?“ Ég hélt áfram að vera þrasgjörn. Um árabil var það atvinna mín að þrasa. Stundum gerði þrasið gagn, stundum ekki. Samt var það nauðsynlegt. Það þýðir ekki að drekka bara kaffi. Einhver verður að taka til hendinni. Hitt vefst meira fyrir mér – þetta með einsemdina. Ég er ekki lengur hrædd um að enginn viti af mér! Það er stundum ágætt, stundum ekki eins gott. Það fer eftir því hversu góður ferðafélagi ég er hverju sinni, hversu aflögufær ég er. Og það er einmitt þá sem ég skrifa. Þegar ég er óvenjulega aflögufær.

Guðrún Helgadóttir, 2000

Hér að neðan er upptaka af hátíðardagskrá sem var haldin á Borgarbókasafninu þann 5. október árið 2014 í tilefni af 40 ára höfundarafmæli Guðrúnar Helgadóttur undir yfirskriftinni „Að þið skulið vera að þessu“. Upptökuna má einnig finna undir æviágripi á Bókmenntavefnum.

Dagskráin var haldin í samstarfi við Reykjavík Bókmenntaborg og Forlagið, og á sama tíma var opnuð sýning tileinkuð höfundarverki Guðrúnar. Fram komu Ari Eldjárn, Katrín Jakobsdóttir (í félagi við syni tvo) og Silja Aðalsteinsdóttir. Guðni Franzson og Egill Ólafsson fluttu atriði úr tónverki Guðna sem samið var við Ástarsögu úr fjöllunum. Við vekjum sérstaklega athygli á viðtali við Guðrúnu sjálfa sem Hildur Knútsdóttir tók við hana (hefst á mínútu 27). Mjög skemmtilegt eins og allt sem frá Guðrúnu kom. Hún byrjar og endar spjallið á að þakka fyrir hvað allir séu góðir við hana að halda slíka veglega dagskrá með öllu þessu skemmtilegasta fólki landsins og sagði söguna af yfirskriftinni: Að þið skuluð vera að þessu. En það voru fleyg orð móður hennar þegar hún sagði henni að hún ætlaði að gefa út bók, en móðir hennar var 10 barna móðir og pabbinn alltaf út á sjó. Það þótti því einfaldara að tala við barnaskarann í fleirtölu til að halda öllu til haga.

Guðrún nefnir meðal annars í viðtalinu að hún telji að allt sem rithöfundur skrifi hafi eitthvað sjálfsævisögulegt ívaf. Spurð út í barnabækur fyrr og nú segir hún byltingu hafa gerst á þessum fjörtíu árum og þakkar Silju Aðalsteinsdóttur meðal annars fyrir að breyta landslagi barnabókmennta og útgáfu á Íslandi. Guðrún segir að henni hafi alltaf verið illa við þetta hugtak – raunsæisbókmenntir -  og spyr: raunsæi hverra? Að raunsæið eigi maður einn, sitt eigið raunsæi sem sé ólíkt annarra, veruleiki hvers og eins er persónuleg reynsla. Guðrún segir að öll list sé fólgin í að koma skipulagi á óreiðuna, því við ráðum nú ekki mikið við óreiðu lífsins. Hún segir það mikilvægt að prédika aldrei yfir börnum, og það kunni ekki góðri lukku að stýra að reyna að stjórna með vitinu einu saman og gleyma tilfinningunum. Hún gagnrýnir þessa hólfaskiptingu, að vitið sé á einum stað, ástin á öðrum og segir listina ekki vera einungis fyrir hátíðardaga frekar en að ástin sé einugis fyrir næturnar. Hún sagði lífið vera eins og mikilvægt tónverk, þar býr allt, sorg og gleði. Guðrún byrjaði að skrifa 39 ára eins og Astrid Lindgren einnig gerði og segir jafnframt að sú kona hafa verið ein skemmtilegasta manneskja sem hún hafi hitt í lífinu og sagði sögu af kynnum sínum við skáldsystur sína og gestir veltust um af hlátri. Að lokum kom Guðrún inn á hvernig það væri að skrifa bækur og sagði:

„Það er voðalega gaman að skrifa bækur þegar maður er búinn að því."

Henni var fagnað með lófaklappi og hlátrasköllum eins og skáldsögur hennar hafa og munu eflaust halda áfram að gera um ókomna framtíð.


Guðrún Helgadóttir fæddist 7. september árið 1935 og lést þann 23. mars 2022.
Við fögnum minningu hennar og dásamlegum skáldskap og þökkum gjafirnar.

Flokkur
UppfærtÞriðjudagur, 20. september, 2022 12:30
Materials