HÆTTULEGAR BÆKUR

Ég hef fundið í illskunni eins konar aðdráttarafl sem eykur ávallt losta minn, glæpur gerir mig hungraðan, því ógurlegri því meira örvar hann.

Úr Justine  (Justine, ou les Malheurs de la Vertu) eftir Marquis de Sade

Í vísindaskáldsögunni Fahrenheit 451 eftir Ray Bradbury eru bækur og hið ritaða orð talin hættuleg ógn við samfélagið. Aðalsöguhetjan vinnur við að brenna allar bækur sem finnast og einnig húsin þar sem þessi mikla ógn, bækurnar, hafa leynst.

Það þykir að sjálfsögðu helgispjöll að brenna bækur og aðför að frelsi í dag en hefur þó viðgengist alla tíð. Bækur geta hreyft við hugsun og heimsmynd - og það getur þótt hættulegt. Bækur hafa þótt særa blygðunarkennd,  þótt hvetja til ósæmilegrar hegðunar, hugaróra og framkvæmda, verið fjandsamlegar eða óæskilegar í einhverjum skilningi gagnvart ákveðnum þjóðum, samfélagshópum, eða stjórn- og yfirvöldum. Bækur geta haft áhrif.
Já, kannski eiga bækur einmitt að vera svoldið hættulegar, hreyfa við, jafnvel skekja. Eða hvað?

Það hefur verið fullyrt að ef til væri hilla á bókasöfnum sem ætluð er óæskilegum bókum þá ætti Justine eftir Marquis de Sade heima þar. Þetta 18. aldar verk má kalla andsetið ævintýri, og hefur það sært blygðunarkennd fólks með vanvirðingu, ofbeldi, kvenfyrirlitningu allt frá því það kom út árið 1791.

Simone de Beauvoir  spyr í ritgerð frá árinu 1951: Eigum við að brenna Sade? Esseyjan birtist upphaflega í Les Temps Modernas,  Faut-il brûler Sade?  og var síðar gefin út á bók hjá Gallimard árið 1955.

Þar vísar Beauvoir í verk þessa umdeilda franska rithöfundar, Donatien Aphonse Francois de Sade, betur þekktur sem Marquis de Sade, fæddur 2. júní 1740 í París. Hann er þekktur fyrir rit sín þar sem kynórar, pervertismi, ofbeldi og gífurlegur sadismi er ríkjandi ásamt því að hafa sjálfur útlifað skrif sín, en hugtakið sadismi er dreginn af hans nafni sem segir nú sitt um skrif hans. Hann var margsinnis lokaður inni fyrir gjörðir sínar, fékk dauðadóm þó að honum hafi ekki verið fullnægt. Sade var haldið í Bastillunni á árunum 1784-89 þar sem hann skrifar stóran hluta sinna heimspekilegu sem og klámfengnu texta í formi samtala og skáldskapar. Á byltingarárinu er honum komið fyrir á geðveikrahælinu Charenton en látinn laus ári síðar. Í frelsi sínu upp úr 1790 gefur hann út nokkur skrifa sinna, þar á meðal Justine. Það er síðan um 1801 sem Napoleon Bonaparte fyrirskipar að handtaka eigi hinn ókunna höfund að sögunum um systurnar Justine og Juliette. Árið 1803 er Sade greindur veikur á geði og er aftur komið fyrir á Charenton þar sem hann hélt áfram að skrifa sögur og leikrit, sem voru uppfærð á hælinu, allt til dauðadags, 2. desember 1814.

Verkið Justine sem og önnur skrif Sade eru sannarlega hrollvekjandi og höfundurinn á hættulegum mærum, því kannski ekki að undra að bókin hafi verið bönnuð í lok 18. aldar. Sade boðar frelsi frá öllu siðferði, meðvitaður um ómöguleika þess.

Beauvoir ásamt fleirum staðsetur Sade í bókmenntasögunni og fjallar um hann út frá heimspeki. Efniviður hans liggi í hugarórum og skrif hans skapa heim sem er ekki okkar heldur tilheyra landi sem aðeins frelsi hugans getur fleytt okkur til og þar vakna mikilvægar spurningar um illsku, grimmd og hættulegar þrár fólks. Sade velur grimmd frekar en áhuga- eða skeytingarleysi samkvæmt Beauvoir . Með fantasíu skrifum sínum stígur hann inn í ríki illskunnar.

Heimurinn sem Sade birtir er demónískur,  heimur einangraðs huga þar sem hugarórar fá að flæða frjálst án marka hins siðlega, handan hins góða og meðal hins illa. Verkið Justine birtir kvenhatur og svívirðilegt ofbeldi en engu að síður er Justine sjálf, hetja sögunnar, en hver einasti karlmaður sögunnar sjálfselsk skepna. Í lokin sleppur hún undan allri sinni skelfilegu reynslu, undan ríki illskunnar. Elding lýstur í gegnum brjóst hennar og hún deyr á dramatískan hátt, líkt og um upprisu Krists væri að ræða. Guði og hinu góða er hafnað í hvívetna í sögunni en í lokin er möguleiki Guðs þó enn fyrir hendi. Á þann hátt sleppur ríki illskunnar frá okkur, í einni eldingu, og gerir lesanda erfitt fyrir að staðsetja textann og hugsun hans. Hver er hugsun hans og í hvaða heimi býr sú hugsun?

En það er ekki erfitt að skilja að Justine geti sært blygðunarkennd og hafi þótt og þyki jafnvel enn óæskileg og óþægileg -  en undarlegt að bækur eins og Dagbók Önnu Frank, Hinn mikli Gatsby, Á hverfanda hveli, Elskaðir, Harry Potter, Bróðir minn Ljónshjarta, Frú Bovary hafi á einhverjum tímapunkti þótt óæskilegar eða jafnvel verið útilokaðar eða bannaðar. Það sem gerir verk eins og Justine kannski hættulegt (því hugarórar geta verið hættulegir ef þeir raungerast) er það frelsi sem það boðar, frelsi frá siðferði og þar með inn í háskalega hnignun, inn í hrollvekjanda  óra og ríki illskunnar. Stundum er skáldskapur verulega óþægilegur, háskalegur, svívirðilegur og mjög grimmur. En eins og Simone de Beauvoir spurði retórískt um miðja 20. öld: Þurfum við að brenna hann?

Í september hefur vika bannaðra bóka verið haldin í Bandaríkjunum í nær 40 ár. Megin markmið er að minna á tjáningarfrelsið og fagna lestrarfrelsinu – rétt einstaklingsins til að velja sér lesefni án ritskoðunar.

Flokkur
Merki
UppfærtMánudagur, 2. janúar, 2023 18:03