Valli á Bilibili

Valli verður frægur í Kína

Kvikmyndagerðarkonan Karlotta Jiaqian Chen hafði ekki mikla þekkingu á starfsemi Borgarbókasafns Reykjavíkur áður en hún tók þátt í kynningarmyndbandi á vegum þess, reyndar sem statisti. Þar lenti hún á spjalli við verkefnastjóra hjá safninu og heillaðist – svo mjög að hún hafði samband og bað um að fá að gera heimildamynd til að kynna starfsemina fyrir samlöndum sínum í Kína.

Útkoman er rúmlega 20 mínútna heimildamynd um Borgarbókasafnið, sem nálgast má á myndbandasíðunni Bilibili, sem er nokkurs konar kínversk útgáfa af YouTube. Þar er Valgeir Gestsson, eða Valli, í aðalhlutverki, en bæði notendur og aðrir starfsmenn koma við sögu. 

Nú þegar hefur myndbandið fengið yfir 75.000 spilanir á Bilibili - og enn fleiri á kínverska Twitter - en Chen ætlar að deila því á fleiri miðla á næstunni. Talsvert er um athugasemdir líka, en Chen hvatti notendur til að skrifa á ensku svo Íslendingar gætu skilið þær. Þar er bæði bókasafnið lofsamað, sem og aðalsöguhetjan – Valli. Þar má að auki lesa einlægar vangaveltur um bókasöfn og tækniþróun samfélaga.

Karlotta og Valli vinna nú að enskri útgáfu af heimildamyndinni og við látum ykkur vita þegar hún er tilbúin. Þangað til getið þið horft á kínversku útgáfuna á Bilibili, flestir tala ensku og svo er enskur texti undir. 

Flokkur
UppfærtFöstudagur, 7. janúar, 2022 14:19