Lukas Bury í Gerðubergi
Lukas Bury with the project team of Gerðuberg calling: Svanhildur, Ilmur and Martyna

Að dvelja og að breyta | Lukas Bury

Lukas Bury er fyrsti listamaðurinn sem tekur þátt í samsköpunarferli verkefnisins Gerðuberg calling. Í október mun hann sinna listænu rannsóknarverkefni sínu They have no pictures on the walls í Gerðubergi. Þar beinir hann sjónum að samfélagi pólskra innflytjenda á Ísland og tengir við hugmyndir um að eiga heima einhvers staðar. Við spurðum Lukas nokkurra spurninga.

Lukas, hélstu að þú myndir nokkurn tíma vinna á bókasafni?
Nei, en ég hélt ekki heldur að ég myndi nokkurn tíma búa á Íslandi. Í mínu tilfelli þá hafa margir góðir hlutir gerst, sem ég sá aldrei fyrir. Ég er forvitinn í eðli mínu og hlakka til að öðlast þessa reynslu.

Þegar þú hugsar um bókasöfn, hvað er það fyrsta sem þér dettur í hug – tilfinning, lykt, andrúmsloft eða minning?
Þögn, röð og regla, litríki – allt í jákvæðum skilningi þessara orða.

Í verkefninu Gerðuberg kallar vinnur bókasafnið með hugmyndir um að tilheyra og örugg rými. Áttu þér ákveðinni stað, sem er almenningsrými, þar sem þér finnst þú tilheyra?
Ég hef ekki hugsað mikið út í það. Alveg síðan ég var ungur, þá var ég hræddur við mannmergð og háværa staði. Í ljósi þess, þá er Ísland vel valinn staður fyrir mig. En þegar ég spái meira í það, þá held ég að bókasöfn uppfylli mín persónulegu skilyrði fyrir öruggt rými  – þar er oftast hljóðlátt, nægt rými og það er aðgengileg ólíku fólki með mismunandi smekk.

Geturðu sagt okkur frá verkefninu þín fyrir Gerðuberg kallar?
Verkefnið They have no pictures on the walls er listrænt rannsóknarverkefni, markmið þess er að veita dýpri innsýn í samfélag Pólverja á höfuðborgarsvæðinu. Ég vinn verkefnið með Weroniku Balcerak, sem stundar nám við LHÍ og var úthlutað styrk til verkefnisins úr Nýsköpunarsjóði námsmanna, Önnu Wojtyńska, sem er doktor í mannfræði og hefur rýnt í stöðu Pólverja á Íslandi í sínum rannsóknum undanfarin ár, og Önnu Marjankowska, sem ljáir verkefninu krítíska rödd sem utanaðkomandi. Eftir að hafa lagt fyrir könnun, munum við bjóða tíu einstaklingum frá Póllandi í viðtal og leitast við að svara spurningum sem ég hef spurt mig að frá byrjun verkefnisins. Að lokum gefum við út niðurstöðurnar í kveri og útgáfuhófið verður á bókasafninu samhliða sýningu í Gallerí RÝMD.

Hvernig tengist verkefnið þitt hugmyndum um að tilheyra og örugg rými?
Frá mínum bæjardyrum séð, þá ætti heimili að vera öruggur staður í sjálfu sér. En getur heimili líka orðið að staðleysu (eins og flugvellir eða hótelherbergi eru oft)? Getur íbúð eða hús orðið að heimili, ef við lítum á dvöl okkar þar frá upphafi sem tímabundna? Hversu lengi þurfum við að dvelja og hverju að breyta innan rýmisins til að gera það að okkar? Á unglingsárum mínum og eftir að ég varð fullorðinn flutti ég oft, ég upplifði ekki tilfinninguna um að tilheyra, því ég vissi að ég myndi ekki vera á staðnum til frambúðar. En, ég fann óöryggið leka af tilfinningunni, sem ég náði að vinna úr eftir að ég flutti til Íslands. Ef til vill er það af því við erum stödd á eyju, Íslandi sem er svo langt frá öllu sem ég þekkti til þessa? Ég spyr mig þessara spurninga í listrænu starfi mínu og sem hluti af sýningunni í RÝMD, sem verður opnuð í október. Mun Weronika Balcerak, sem kemur að verkefninu í gegnum styrk frá Nýsköpunarsjóði námsmanna, sem spyrill og safnar tíu mögulegum útgáfum svara.

Þú munt vinna í Gerðubergi í mánuð, hvernig hafðirðu hugsað þér að nota vettvang bókasafnsins?
Rannsóknin verður komin langt á veg ásamt vinnu við gerð listaverkanna, því mun ég leggj áherslu á miðlun reynslu og þekkingar sem verkefnið skapar. Mig langar að skipuleggja mismunandi viðburði eins og umræðufundi, leiðsagnir og kynningar sem virkja notendur safnsins og halda umræðunni á lofti þann mánuð sem ég dvel á bókasafninu í Gerðubergi.

Að hvaða leyti er umhverfi bóksafnsins ólíkt þínu starfsumhverfi í dag?
Vinnustofan mín er unglingaherbergi, þar hef ég algjört frelsi og þarf aldrei að ganga frá eftir mig eða vera hræddur um að málning slettist á veggi eða gólf. Ég hlusta á tónlist í hátölurum og elska að sökkva mér í tilfinninguna sem maður hefur um frelsi frá unglingsárunum. Ég býst við að bókasafnið sé andstæða þessa – ætli ég verði ekki að vera hljóður, halda röð og reglu og hlusta á tónlist með heyrnartólum. En það þýðir ekki að það verði eitthvað verra. Á vinnustofunni er ég einn og á bókasafninu hef ég tækifæri til að tengjast fólki, eiga í samtali og hagnast á þeim samskiptum.

Ef þú myndir skilja eitthvað eftir á bókasafninu sem notendur gætu fengið að láni, hvað myndi það vera?
Ritið They have no pictures on the walls sem mun líta dagsins ljós á bókasafninu.

 

Frekari upplýsingar um verkefni Lukas Bury í Gerðuberg calling má finna hér.

Flokkur
UppfærtMiðvikudagur, 8. nóvember, 2023 13:31