Guðný Sara velur rými fyrir Stofuna

Guðný Sara skapar Stofuna | A Public Living Room

Guðný Sara opnar sína persónulegu útgáfu af Stofunni í Hringnum á annarri hæð í Grófinni þann 16. febrúar. Hún mun nota rýmið til að kanna eðli samfélagsrýma og tilviljanakenndar frásagnir sem verða til á slíkum stöðum. Við fengum að spyrja listamanninn og hönnuðinn Guðnýju Söru nokkurra spurningar við undirbúninginn fyrir opnunina.

Hvaða stað valdir þú fyrir þína Stofu?

Ég valdi Hringinn einfaldlega því rýmið talaði strax til mín þegar ég kom inn á safnið. Það er svo undursamlega furðulegt, þetta litla skot, hringlaga, líkt og svalir innandyra, það tengir einnig hæðirnar á fallegan hátt með stórum gluggavegg. Rýmið er sinn eigin litli strúktúr innan annars mjög stórs sem einangrar Stofuna mína örlítið, en býður þig á sama tíma velkominn með stórum og ávölum álhandriðum.

Hverju viltu koma fyrir í Stofunni?

Stofan tekur á sig mynd borðstofunnar. Langborð og stólar bjóða gesti velkomna til að setjast og segja sögur ásamt því að skrásetja þær.

Hvernig viltu að notendur upplifi rýmið?

Líkt og áður segir vil ég að notendur upplifi sig sem gesti í matarboði, eða kaffiheimsókn. Umhverfið virkar þá vonandi sem ákveðin hvatning til þess að deila sögum sem notendum hefur verið sagt í opinberum rýmum, eða jafnvel sögur sem við höfum ákveðið að segja fólki sem við þekkjum ekki neitt. Úr verður vonandi róleg og þægileg sögustund og í kjölfarið almennt spjall um hvernig við kynnumst hinu ólíklegasta fólki með ótrúlegustu frásagnir.

Við hvern langar þig að ræða við á Stofunni?

Það eru allir velkomnir í Stofuna mína, ég vil helst fá gesti á öllum aldri frá öllum heimshornum. Ég trúi því að við búum öll yfir skoðunum um málið og höfum öll lent á spjalli við ólíklegasta fólk á skrítnum stöðum. Oft þurfum við jafnvel gott umhverfi til umræðu til þess að muna þessar sögur og Stofan mín verður einmitt slíkt umhverfi.

Leitarðu í ákveðinn innblástur frá öðrum stöðum í hönnun þinnar Stofu?

Ég mun vinna myndlistarverk, textaverk, útfrá sögunum sem mér og öðrum notendum verða sagðar í Stofunni. Hugmyndin spratt frá saklausu skrolli á Instagram þar sem ég fann japönsku listakonuna Rieko Koga, sem vinnur með útsaum og efni í textíl og notar til þess nálar og þræði, í túlkun sinni á sinni heimssýn. Verkið mitt verður innblásið frá verkum Koga, sem mun einnig tengjast þeirri stofulegu hefð að prjóna eða vinna handavinnu heimavið í stofunni. Sögurnar fá því áframhaldandi líf í textaverkinu eftir að þeim hefur verið deilt út í kosmós Stofunnar minnar og verða til sýnis út vikuna. Auk þess verð ég viðstödd suma dagana til þess að sitja yfir rýminu og taka á móti fleiri sögum gesta.

Innblástur Guðnýjar Söru - Þátttökumiðað textílverk Innblástur Guðnýjar Söru - Þátttökumiðað textílverk

Meira um tilraunaverkefnið Stofan | A Public Living Room má finna hér.

Frekari upplýsingar:
Dögg Sigmarsdóttir
Verkefnastjóri | Borgaraleg þátttaka
dogg.sigmarsdottir@reykjavik.is

Flokkur
UppfærtMánudagur, 16. október, 2023 15:36