Stafræn velferðarþjónusta | Opið samtal

Styrmir Erlingsson, framkvæmdastjóri rafrænnar þjónustumiðstöðvar velferðarsviðs, ásamt Steinunni Ásu Sigurðardóttur starfsnema á sama sviði, ræddu við okkur um aðgengi að stafrænni velferðarþjónustu og hvernig almenningsrými eins og bókasöfn geti stutt við slíka þróun. Hvernig breytist rödd og viðmót velferðarþjónustu þegar hún er í auknum mæli stafræn?  

Styrmir lagði sérstaka áherslu á að borgin í heild talaði með einni rödd, stafræna vegferðin ætti að gera upplýsingamiðlun skilvirkari og auka aðgengi borgarbúa að stuðningi þvert á þjónustusvið borgarinnar. Nú er margt í þróun, ljóst er samkvæmt þjónustukönnunum að aðgengi að tæknibúnaði hamlar ekki aðgengi að upplýsingum. Framsetning upplýsinga snertir bæði röddina, það er viðmótið sem mætir notendum, sem og skýrleika skilaboða til að koma í veg fyrir misskilning, auðvelda aðgengi að sérfræðiþekkingu og félagslegum stuðningi. Með sérstakri velferðartæknismiðju, þá er stöðugt verið að betrumbæta miðlun og stytta boðleiðir.

Almenningsrými eru ekki sérstaklega hentug fyrir prófun á slíkri þjónustu, sem varða sérstaklega viðkvæm málefni. Prófunin verður oft að eiga sér stað inni á heimili þess sem nýtir þjónustuna, í því umhverfi. En vissulega er aðgengi að sérfræðiþekkingu mikilvæg og miðlun upplýsinga til fólks á mismunandi tungumálum. Þar getur félagsauður verið lykilatriði og nokkuð sem stafræn þróun tekur einnig til greina.  Hugsanlega væri einmitt hægt skapa jarðveg á bókasafninu sem styður við félagsauð og vilja borgarbúa til að deila bæði þekkingu, færni og hlutum sín á milli. Klárlega er þörf á að þróa stafrænar lausnir til að deila meiru og byggja þannig upp sjálfbærari samfélög  sem tengja fólk saman.

Við þökkum fyrir samtalið og minnum á að félagasamtökum er velkomið að auðga menningardagskrá bókasafnsins með fræðslu og skemmtilegum viðburðum. Sendið okkur línu, við erum opin fyrir nýjum hugmyndum.

Opið samtal, hvað er það? Umræðuvettvangur um málefni tengd réttindum, aðgengi og þátttöku í samfélaginu. Dagskráin í heild.

Frekari upplýsingar
Dögg Sigmarsdóttir
Verkefnastjóri | Borgaraleg þátttaka
dogg.sigmarsdottir@reykjavik.is

Flokkur
UppfærtÞriðjudagur, 31. janúar, 2023 15:46