Hópur fólks á degi íslensks táknmáls

Þrívítt og sjónrænt | Opið samtal

Fyrsta opna samtal ársins var sjónrænt og þrívítt. Uldis Ozols kynnti þróun íslensks táknmáls í formi VV-sagna. Viðburðurinn var unninn í samstarfi við Málnefnd um íslensk táknmál í tilefni af degi íslenska táknmálsins 11. febrúar. Fluttar voru gamansögur sem allir gátu skilið með aðstoð táknmálstúlks.

Frásagnarhefðin er rík í táknmálssamfélögum heims og varðveita sögurnar bæði menningu og sögu hópsins sem og táknmálið sjálft. Íslenskt táknmál er þar engin undantekning og eru sögurnar sem varðveittar eru ígildi bókmennta íslenskrar tungu, menningarverðmæti og heimild um þróun málsins og þar með málsögu. Þegar kemur að frásögnum er sögumaðurinn í senn höfundur, flytjandi og listamaður enda getur hann tekið á sig mynd hinna ólíklegustu fyrirbæra eins og dæmin sanna. Sögurnar lifna við í flutningi sögumanns sem hefur gott vald á táknmáli og nýtir hið sjónræna, þrívíða mál til hins ýtrasta og segir sögur af tyggjói, hákarli, hrút eða símbréfi.

Borgarbókasafnið óskar málhöfum íslensks táknmáls til hamingju með daginn og þakkar kærlega fyrir áhugavert erindi og ánægjulega samverustund á Torginu.

Áhugasöm um opin samtöl á Torginu  mega gjarnan setja sig í samband við:
Dögg Sigmarsdóttir
Verkefnastjóri | Borgaralega þátttaka
dogg.sigmarsdottir@reykjavik.is

Flokkur
UppfærtÞriðjudagur, 31. janúar, 2023 15:53