Hópur situr saman og ræðir stjórnmál í Þýskalandi

Umferðaljósastjórn í Þýskalandi? | Opið samtal

Nú lýkur brátt löngum valdatíma Angelu Merkel, kanslara Þýskalands til sextán ára. Hvað tekur við að loknum kosningadegi þann 26. september 2021?

Auðunn Arnórsson stjórnmálafræðingur og Sabine Leskopf borgarfulltrúi ræddu komandi þingkosningar í Þýskalandi í opnu samtali. Þau þekkja bæði vel til þýskra stjórnmála og spáðu í spilin á Torginu á bókasafninu. Sabine sagði:

„Valdatíð Angelu Merkel hefur fyrst og fremst einkennst af krísustjórnun. Hún er andlit stöðugleika, en nú vilja kjósendur breytingar.“

Auðunn nefnir að persónuleg frammistaða kanslaraefna hafi breytt fylgi flokkanna mikið á síðustu vikum. Ljóst er að snöggar breytingar eru á fylgi flokkanna og sýndi Sigurður Ólafsson, sem stýrði umræðu, nokkrar myndir sem vísuðu í afdrifarík atvik kanslaraefna sem höfðu mikil áhrif á pólitískan stuðning flokkanna. Hvað málefnin varðar segir Auðunn:

„Þau málefni sem eru fyrirferðamikil núna eru loftslagsmálefni, vegna mannskæðra flóða sem skullu á í júlí, og svo utanríkisstefna Þýskalands í kjölfar stöðunnar sem nú er uppi í Afganistan. En einnig þá eru þessi klassísku efnahagsmál hluti af umræðunni og staða fólksins í landinu í kjölfar samfélagsbreytinga vegna heimsfaraldursins.“

Stjórnmál í Þýskalandi rædd

Málefni tengd valdbeitingu stjórnvalda til varnar lýðheilsu hafa ekki verið sýnileg í umræðunni. Eins og Sabine minntist á:

„Það mjög sérstakt að málefni tengd persónulegu frelsi og beitingu ríkisvalds á krísutímum eru ekki mikið rædd í þessari kosningabaráttu.“

Ljóst er að snöggar breytingar eru á fylgi flokkanna og sýndi Sigurður Ólafsson, sem stýrði umræðu, nokkrar myndir sem vísuðu í afdrifarík atvik kanslaraefna sem höfðu mikil áhrif á pólitískan stuðning flokkanna.

Stjórnmál í Þýskalandi rædd

Sabine sem hefur kosningarétt í Þýskalandi segir:

„Ég get með engu móti sagt til um hver úrslit þessara kosninga verða, það ríkir mikil óvissa hér.“

Auðunn telur ólíklegt að stór samsteypustjórn verði mynduð í kjölfar kosninganna:

„Líklegra væri að við myndum sjá „umferðaljósastjórn“, rautt, gult og grænt samstarf, en óvissan er mikil og erfitt að spá fyrir um hvaða flokkar muni mynda næstu stjórn.“

Við þökkum kærlega fyrir spennandi umræður.

Samtalið var skipulagt af Félagi stjórnmálafræðinga og Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands og stjórn umræðu var í höndum Sigurðar Ólafssonar, stjórnmálafræðings og framkvæmdastjóra Vestnorræna ráðsins.

 

Ef þú ert með hugmynd sem þig langar að ræða á bókasafninu í opnu samtali, hafðu þá endilega samband.

Frekari upplýsingar veitir:

Dögg Sigmarsdóttir

Verkefnastjórn | Borgaraleg þátttaka

dogg.sigmarsdottir@reykjavik.is

Flokkur
UppfærtÞriðjudagur, 31. janúar, 2023 16:05