Gunnar Helgason er lesandi vikunnar

Lesandinn | Gunnar Helgason

Lesandi vikunnar að þessu sinni er rithöfundurinn, leikarinn og leikstjórinn Gunnar Helgason. Fyrir utan barnaefni sem hann hefur unnið í félagi við Felix Bergsson er Gunnar flestum börnum kunnur fyrir metsölubækurnar um fótbolakappann Jón Jónsson sem og bækurnar um Stellu og fjölskyldu hennar – en sú fyrsta í þeim flokki, Mamma klikk, sló í gegn sem leikrit í Gaflaraleikhúsinu í fyrra og er væntanlegt aftur á fjalirnar þar í haust. Gunnar hefur ekki slegið slöku við lesturinn í samkomubanninu og mælir hér með – ekki einni – heldur nokkrum góðum bókum:

Ég les nú mest af unglinga- og barnabókum. Ég er til dæmis nýbúinn með Nornina eftir Hildi Knúts og Ungfrú fótbolta eftir Brynhildi Þórarins. Mjög ólíkar bækur en báðar virkilega góðar. Ég sá reyndar í lokin á Norninni að ég hefði átt að vera búinn að lesa Ljónið eftir hana Hildi og viðurkenni þar með að hafa klikkað á því. Held að það sé eina bókin sem ég hef ekki lesið eftir hana. Ungfrú fótbolti tók mig hinsvegar á mikið minningarferðalag því hún gerist árið 1980 þegar ég var að verða 15 ára. Á hverri blaðsíðu rifjaðist eitthvað upp úr æskunni og launfyndnin hitti í mark hjá mér. Og ég hugsaði stöðugt um hana Auðbjörgu sem var með mér í bekk frá 11-16 ára aldurs. Hún var hrikalega góð í fótbolta en hafði engan stað til að æfa hann á. Hún var alltaf kosin snemma í liðin í frímínútunum og var sárt saknað í leikfimitímunum þegar strákar fóru í fótbolta og stelpur fóru í ... tja, ég veit ekki hvað.  En ég mæli heilshugar með Ungfrú fótbolta.

Nú og svo er ég líka tiltölulega nýbúiinn að lesa Vigdísi, fyrsta konuforsetann eftir Rán Flygenring. Það er náttúrlega skyldulesning á öllum heimilum. Púnktur! Sky – ldu – les – ning!

En sú bók sem ég las síðast er ókomin út og heitir Hetja. Hún kemur í búðir með jólabókaflóðinu og er eftir hana Björk Jakobsdóttur, konuna mína. Þetta er barna-, unglinga- og fullorðinsbók. Og hún er fáránlega spennandi og hrærði svo í mér að ég gat ekki lesið síðustu blaðsíðurnar því ég sá ekkert út úr augunum fyrir tárum.

Akkúrat núna er ég að lesa 13 ástæður. Ágætis bók um sjálfsmorð unglingsstúlku og ástæðurnar fyrir því að hún ákvað að fyrirfara sér. Það er nú formið á þeirri bók sem mér finnst mest heillandi. Alltaf gaman að sjá ný form þó að umfjöllunarefnið sé erfitt.

Þannig er það nú :)

UppfærtFöstudagur, 4. júní, 2021 13:36
Materials