Helgi Snær er hrifinn af Viggó viðutan
Helgi Snær er hrifinn af Viggó viðutan

Lesandinn | Helgi Snær Sigurðsson

Helgi Snær Sigurðsson, blaðamaður og teiknari, er lesandinn okkar að þessu sinni, en hann er mikill áhugamaður um listir almennt og starfar sem blaðamaður á menningardeild Morgunblaðsins. Helgi er með MA-gráðu í myndlist og nam einnig hagnýta fjölmiðlun einn vetur í Háskóla Íslands. Auk blaðamannastarfsins heldur Helgi úti hlaðvarpsþætti á mbl.is um kvikmyndir.

Þegar ég var beðinn um að mæla með bókum sem lesandi vikunnar leist mér ekki á blikuna því ég er almennt frekar minnislaus og gæti óundirbúinn ekki mælt með mörgum bókum. Þegar ég fór að renna yfir bókahillurnar heima sá ég þó að ég gæti hæglega mælt með nokkrum bókum þó að vísu sé frekar langt um liðið frá því ég las þær. Ef við spólum langt aftur í tímann þá stendur Viggó viðutan algjörlega upp úr. Ég á enn bækurnar um hann sem ég fékk að gjöf á barnsaldri og ein eða tvær eru farnar á límingunum. Ég teiknaði mikið í æsku og í mínum augum var Franquin, skapari Viggós, meistari meistaranna. Húmorinn er einstakur í teikningum hans og enn í dag hlæ ég að sögunum um Viggó þegar ég fletti í gegnum þessar bækur. Ég veit að bókasafnið í Grófinni á nokkrar gömlu bókanna og ég mæli hiklaust með þeim. Froskur hefur líka verið að gefa út nýjar bækur um Viggó í nokkur ár. Viggó hinn óviðjafnanlegi og Vandræði og veisluspjöll er hrein meistaraverk, svo tvær bókanna séu nefndar. 

Af „fullorðinsbókum“ misgáfulegum get ég svo nefnt nokkrar. Á tímabili hámaði ég Ben Elton í mig og mæli sérstaklega með Popcorn sem samnefnt leikrit er byggt á og Dead Famous. Elton er afar aðgengilegur höfundur og bækur hans mjög skemmtilegar, flestar hverjar. Í þyngri flokki er svo Haruki Murakami sem ég kynntist þegar afgreiðslukona í bókabúð mælti með A Wild Sheep Chase. Þar fer dásamlega rugluð furðusaga um leit að stjörnumerktri kind. Hægt er að mæla með öllum bókum Murakami, ef út í það er farið.

Nær mér í tíma er svo Hvíti tígurinn, bók Aravind Adiga sem hlaut Booker-verðlaunin árið 2008 og nú er komin kvikmynd á Netflix unnin upp úr henni. Sú bók er ,,snilldarlega skrifuð saga um napran veruleika Indlands, saga um spillingu, örbirgð, kúgun, stéttaskiptingu og viðurstyggð sem viðgengst jafnt meðal fátækra og ríkra,” svo ég vitni nú beint í texta á bókarkápu.

Af bókum sem komið hafa skemmtilega á óvart get ég svo nefnt Mann og elg eftir Erlend Loe sem fjallar um lífsþreyttan fjölskylduföður sem snýr baki við samfélaginu og flytur út í skóg þar sem hann kynnist elg. Frábær, fyndin og frumleg. Síðast en ekki síst vil ég svo nefna nýjustu bókina á listanum, Svínshöfuð eftir Bergþóru Snæbjörnsdóttur. Af hverju fær maður frá Breiðafirði viðurnefnið Svínshöfuð? er spurt á bókarkápu. Ég ætla ekki að svipta þá sem eiga eftir að lesa bókina svarinu við því.

Merki
UppfærtMánudagur, 1. febrúar, 2021 11:54
Materials