Lesandi vikunnar er Kristín Svava Tómasdóttir
Kristín Svava Tómasdóttir mælir með skáldsögunni Austur

Lesandinn | Kristín Svava Tómasdóttir

Lesandi vikunnar að þessu sinni er Kristín Svava Tómasdóttir, skáld, sagnfræðingur og ritstjóri tímaritsins Sögu. Hún er kunn fyrir ljóðabækur sínar sem og fræðistörf en hún uppskar mikið lof fyrir rit sitt Stund klámsins: Klám á Íslandi á tímum kynlífsbyltingarinnar sem hlaut viðurkenningu Hagþenkis árið 2018. Kristín Svava mælir með bókinni Austur:

"Ég er enn að lesa mig gegnum jólabókaflóðið og er nýbúin með skáldsöguna Austur eftir Braga Pál Sigurðsson. Hún fjallar um ólánlega hagfræðinginn Eyvind og yfirgengilegar hrakningar hans í Reykjavík, á sjónum og í afskekktum dal á Austurlandi. Austur er viðeigandi titill því ekki aðeins fer Eyvindur austur heldur er öll hans saga örvæntingarfull viðleitni við að halda sér á floti í fjandsamlegum heimi. Þetta er grótesk úrvinnsla á alls kyns þjóðernis- og karlmennskuímyndum, næstum eins og splattermynd hitti Hrafn Gunnlaugsson, nema með húmor. Mjög agressív og skemmtileg bók."

UppfærtFöstudagur, 4. júní, 2021 13:34
Materials