Allt um Verkstæðin

Verkstæðin okkar má finna á þremur söfnum Borgarbókasafnsins, í ÁrbæGerðubergi og Grófinni. Verkstæðin eru sérútbúin rými með ókeypis aðgangi að fjölbreyttum forritum, tækni og tólum. Á Verkstæðunum eru reglulega haldnar smiðjur fyrir mismunandi aldurshópa og "opin hús” undir nafninu Fiktdagar, en einnig er hægt að bóka einstaka tæki eða vinnustöð á ákveðnum tímum. Þú getur nýtt rýmið til að fikta og gera tilraunir með tæki og forrit á staðnum, unnið sjálfstætt eða í hópi, leiðbeint öðrum og lært á þínum eigin hraða. 

Verkstæðin eru fyrir alla

Verkstæðin bjóða upp á eitthvað fyrir alla, óháð aldri, getu og bakgrunni.  Á Verkstæðunum getur þú prófað þig áfram með allskyns verkefni, svo lengi sem ímyndunaraflið er til staðar. Þú getur til dæmis 3D-prentað símahylki, samið tónlist, klippt myndbönd, saumað föt, prentað út fatamerki og vegglímmiða, búið til barmmerki eða forritað í Minecraft og skapað sameiginlegan heim.

Þú getur jafnvel byrjað án þess að eiga bókasafnskort!

Fiktdagar

Á “Fiktdögum” er opið hús á Verkstæðunum og hægt er að labba inn og byrja að skapa. Í Gerðubergi eru haldnir Fiktdagar fyrir krakka frá 9 ára aldri en í Grófinni og Árbæ fyrir eldri en 13 ára, nema í fylgd með fullorðnum. Fiktdagarnir eru mismunandi eftir verkstæði og eftir því hvaða búnað þú vilt prófa.

Utan “Fiktdaga” geta allir sem eiga gilt bókasafnskort bókað tæki á Verkstæðunum á ákveðnum tímum og endurgjaldslaust. Bókasafnskortin eru ókeypis fyrir fólk yngra en 18, eldra en 67 og öryrkja. Aðrir borga vægt árgjald

Upplýsingar um næstu Fiktdaga er að finna undir Viðburðir á Verkstæðunum.

Smiðjur

Krakkar á aldrinum 8-16 geta líka skráð sig á Smiðjur sem eru haldnar reglulega á Verkstæðunum. Smiðjur eru vinnustofur um ákveðna tækni, eins og t.d.  Microbits, rafmagn, Minecraft, tónlist eða barmmerkjagerð svo fátt eitt sé nefnt. Það þarf ekki að vera handhafi bókasafnskorts til að skrá sig á smiðju á verkstæðunum en auðvitað hvetjum við alla til að fá sér kort til að geta notið alls sem safnið býður upp á.  Yfirlit yfir næstu Smiðjur er að finna undir Viðburðir á Verkstæðunum.

Hvar eru Verkstæðin?

Verkstæðin eru staðsett á þremur söfnum Borgarbókasafnsins: Árbæ, Gerðubergi og Grófinni. Á hverju Verkstæði er lögð áhersla á mismunandi sérsvið.
Verkstæðin eru einnig reglulega með pop-up viðburði á bókasöfnunum í Kringlunni, Spönginni og Sólheimum. Fylgstu með  Fiktdögum og Smiðjum á viðburðadagtali Verkstæðanna eða á Facebook.

Komdu að fikta!