Útlán og skil

Bókasafnskort

Bókasafnskort Borgarbókasafnsins eru gefin út á einstakling og er óheimilt að nota skírteini annarra. Kortin gilda í öllum söfnum og bókabíl Borgarbókasafnsins, í Bókasafni Seltjarnarness og Bókasafni Mosfellsbæjar.

Hægt er að kaupa eða endurnýja bókasafnskort hér á vefnum með því að skrá notanda inn á „mínar síður“, samþykkja notkunarskilmála og greiða árgjald.

Bókasafnskort eru frí fyrir eldri borgara og öryrkja og fyrir börn að 18 ára aldri. Handhafar Menningarkorta fá frí bókasafnsskírteini, sjá nánar um Menningarkort. Sem stendur er ekki hægt að endurnýja eða skrá frí skírteini hér á vefnum, þau eru einungis afgreidd í afgreiðslum bókasafnanna.

PIN

Lánþegar velja sér PIN-númer með skírteinum sínum. Númerið er notað í sjálfsafgreiðsluvélunum og til að komast á „mínar síður“ hér á vefnum. Innskráðir lánþegar geta séð yfirlit yfir útlán, endurnýjað lán, greitt skuldir og pantað efni.

Gleymt PIN

Ef þú hefur gleymt PIN-númerinu þínu þá eru tvær leiðir til að stilla nýtt.

Fyrri leiðin er að skrá þig inn á „mínar síður“ hér á vefnum með veflykli eða rafrænum skilríkjum, fara í „stillingar“, skrá nýtt PIN-númer og vista.

Sú síðari er að koma í afgreiðslu bókasafnsins með skilríki og biðja um nýtt PIN-númer, starfsfólk safnsins gengur frá því í einum grænum.

Útlán og skil

Lánstími er mismunandi, bækur eru að jafnaði lánaðar út í 30 daga, tónlist í 2 vikur, kvikmyndir í 4 daga og annað myndefni í viku. Hægt er að skila safnefni í öllum söfnum Borgarbókasafns, bókabíl og Bókasafni Seltjarnarness og í Bókasafni Mosfellsbæjar. Endurnýja má lán á safnefni tvisvar sinnum, það er hægt að gera í „mínum síðum“ hér á vefnum, eða með símtali á safnið.

Fullorðnir geta haft allt að 40 gögn að láni á sama tíma, börn undir 18 ára aldri geta haft að hámarki 15 gögn að láni á sama tíma.

Skráðu netfangið þitt

Áminning um skiladag er að jafnaði send til þeirra sem eru með netfang sitt skráð. Vert er þó að benda á að það er alfarið á ábyrgð lánþegans að safnefni sé skilað á réttum tíma. Ef efni safnsins er skilað eftir að útlánstími rennur út eru greiddar dagsektir samkvæmt gjaldskrá. Innheimtubréf er sent 30 dögum eftir skiladag. Forráðamenn fá innheimtubréf vegna vanskila barna og unglinga.

Allra ábyrgð og hagur

Það er allra hagur að vel sé farið með safnefnið. Glatist eða skemmist safnefni í vörslu lánþega er það á hans ábyrgð og þarf hann að greiða andvirði þess. Forráðamenn bera ábyrgð á því efni sem börn fá að láni. Borgarbókasafn ber ekki ábyrgð á skemmdum sem myndbönd, mynd- eða geisladiskar í eigu þess geta hugsanlega haft á afspilunartæki utan safnsins.

Borgarbókasafnið er almenningsbókasafn og öllum opið. Verið velkomin á safnið!