Elísabet Jökulsdóttir og Anna Hafþórsdóttir ræða bækur sínar
Elísabet Jökulsdóttir og Anna Hafþórsdóttir ræða bækur sínar

Um þennan viðburð

Tími
20:00 - 21:30
Verð
Frítt
Hópur
Fullorðnir
Bókmenntir
Fræðsla
Kaffistundir

Bókakaffi | Erfð áföll

Miðvikudagur 2. mars 2022

Á þessu bókakaffi ræðir Soffía Bjarnadóttir við þær Elísabetu Jökulsdóttir og Önnu Hafþórsdóttur, um skáldverkin Aprílsólarkuldi, Rauðir hestar og Að telja upp í milljón – um arf og áföll í skáldskap og um leiðina til að sigrast á áföllum. Getur skáldskapurinn verið sú leið?

Umræður og hugleiðingar um afleiðingar áfalla hafa verið áberandi undanfarin misseri, hvað varðar geðheilbrigði, fíkn og aðra sjúkdóma, sem og áfallasögu og til dæmis heilsu kvenna. Ungversk-kanadíski læknirinn Gabor Maté er einn þeirra sem hafa fjallað um þær alvarlegu afleiðingar sem áföll geta haft og hefur jafnframt komið inn á það að áföll forfeðra- og mæðra geti búið í okkur kynslóð eftir kynslóð. Í heimildarmyndinni The Wisdom of Trauma (2021) er m.a. spurt hvort sársauki geti opnað dyr til heilunar. Tráma er ósýnilegt afl sem hefur áhrif á það hvernig við lifum, hvernig við elskum, hvernig við upplifum okkur sjálf og heiminn allan, nær niður í dýpstu rætur. Er mögulegt að losa sig úr viðjum áfallasögunnar? Skáldskapurinn er sá magíski kraftur sem getur veitt innsýn og aukið skilning okkar á gömlum sárum, sársauka, áföllum okkar sjálfra og annarra og jafnvel varðað leiðina út úr þeim.
 

Elísabet Jökulsdóttir, rithöfundur, ljóð- og leikskáld er landsmönnum vel kunn en hún fékk Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir bók sína Aprílsólarkulda. Þar fylgir lesandinn ungri konu sem reynir að fóta sig í samfélaginu en það reynist þrautaganga þegar geðsjúkdómur hennar tekur æ meira pláss. Rauðir hestar er nýjasta verk Elísabetar, bókin er myndverk með ljóðum og textum um stúlku sem er hestur og stúlku sem elskar pabba sinn sem elskar hesta. Rauðir hestar æða um æðar og blaðsíður og hún leitar háskalegra leiða út úr áfalla- og fjölskyldusögu sinni. 


Anna Hafþórsdóttir starfar sem rithöfundur, leikkona og handritshöfundur. Hennar fyrsta skáldsaga, Að telja upp í milljón, bar sigur úr býtum í handritasamkeppni Forlagsins Nýjar raddir 2021, en þar beinir hún sjónum að áfallasögu fjölskyldu út frá sjónarhorni aðalpersónunnar, stúlku sem berst við að losa sig úr hlekkjum hennar. 

Sjá viðburð á Facebook.

Nánari upplýsingar:
Soffía Bjarnadóttir, verkefnastjóri bókmenntaviðburða
soffia.bjarnadottir@reykjavik.is