Töfrafjallið

Um þennan viðburð

Tími
20:00 - 21:00
Verð
Frítt
Hópur
Fullorðnir
Bókmenntir

KVEIKJA | Listin að skynja og þýða heimsbókmenntir

Miðvikudagur 23. febrúar 2022

Whatever inspiration is, it´s born from continuous I dont´know –
Wislawa Szymborska

Kveikja er hugvekja lista og fræða um eld, innblástur, skynjun og sköpunarferli. Hvað kveikir ljós og jafnvel bál, hver er ljósmóðir/faðir listaverks?

Prómeþeifur færði fórn þegar hann stal eldinum frá guðunum og gaf mannfólkinu að gjöf. Eftir það var hann fjötraður við klett og örn át úr honum lifrina dag hvern til að refsa honum. En á hverri nóttu greri lifrin aftur.

Hér er fjallað um kveikjur í lífi og list, um eldspýtur, gjafir, fórnir. 

Gestir: 
Birna Bjarnadóttir, doktor í bókmenntum 
Gauti Kristmannsson, þýðandi og prófessor í þýðingarfræðum

 

Birna og Gauta flytja hugvekju um reynslu þeirra af Töfrafjallinu eftir Thomas Mann. 
Birna fjallar um  tilraun lista- og fræðimanna um skynjun á lykilverki heimsbókmennta, um leiðangur á Töfrafjallið og Gauti um glímu sína við þýðingu á skáldsögu 20. aldarinnar.

 

Birna Bjarnadóttir, doktor í bókmenntum og fagurfræði. Hún las bókmenntir við Freie Universität í Berlín, University of Warwick og Háskóla Íslands og lauk doktorsgráðu í íslenskum bókmenntum við Háskóla Íslands 2003, veitti Íslenskudeild Manitóbaháskóla forstöðu 2003-2015 og stýrði Vesturheimsverkefni Háskóla Íslands á vegum Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum 2015‒2020. Rannsóknasvið hennar eru fagurfræði og frásagnarhefð nútímabókmennta, íslensk-kanadískar bókmenntir, íslensk-amerískar bókmenntir, landnám innflytjenda í nútímabókmenntum og arfur útlegðar í nútímabókmenntum. Birna hefur birt fræðirit, skáldskap og greinar beggja vegna hafs og ritstýrt fjölda bóka.

Gauti Kristmannsson, þýðandi og prófessor í þýðingarfræðum við Háskóla Íslands. Hann lauk BA-prófi í ensku frá HÍ 1987 og varð löggiltur dómtúlkur og skjalaþýðandi sama ár. Tók meistarapróf í skoskum bókmenntumum við Edinborgarháskóla og lauk svo doktorsprófi í þýðingafræði með ensku sem aðalgrein, þýsku og menningarfélagsfræði sem aukagreinar frá Johannes Gutenberg-háskólanum í Mainz/Germersheim 2001. Ásamt rannsóknum sínum og störfum hjá Háskóla Íslands hefur Gauti sinnt margvíslegum störfum sem ritstjóri, þýðandi og bókmenntagagnrýnandi. Gauti hefur glímt við þýðingu á Töfrafjallinu undanfarin ár og er væntanleg útgáfa árið 2022.


Hér gefur að líta brot úr þýðingu á Töfrafjallinu (Der Zauberberg):

„Ég reyki jú aldrei,“ svaraði Joachim. „Því skyldi ég reykja hér?“

„Þetta skil ég ekki!“ sagði Hans Castorp. „Ég skil ekki hvernig nokkur maður getur látið það vera að reykja – hann missir, svo að segja, af besta hluta lífsins eða í það minnsta af framúrskarandi nautn! Ég hlakka til þegar ég vakna að geta reykt yfir daginn, og þegar ég borða hlakka ég líka til, já, það mætti segja að ég borði eiginlega bara til þess að geta reykt, þótt ég ýki auðvitað aðeins. En einn dagur án tóbaks væri fyrir mér hátindur tómleikans, algjörlega ömurlegur og óspennandi, og ef ég þyrfti að segja við mig að morgni: Í dag færðu ekkert að reykja – ég hefði líkast til ekki kraft til að fara á fætur, í alvöru, ég lægi áfram í rúminu. Sjáðu til: Maður er með vel brennandi vindil – vitanlega má ekki koma loft með eða vera erfitt að sjúga, það er ofboðslega ergilegt – það sem ég á við: Sé maður með góðan vindil er manni eiginlega borgið, það getur bókstaflega ekkert komið fyrir mann. Þetta er nákvæmlega eins og þegar maður liggur á ströndinni, þá liggur maður bara á ströndinni, ekki satt, og þarfnast einskis annars, hvorki vinnu né skemmtunar ... Guði sé lof reykja menn um allan heim, eftir því sem ég best veit er það ekki óþekkt á neinum stað sem maður gæti lent á. Meira að segja pólfarar taka með sér góðar birgðir í svaðilfarir sínar og það hefur alla tíð höfðað til mín frá því ég las það. Því manni getur liðið mjög illa – gefum okkur að mér liði ömurlega: En svo lengi sem ég hefði vindilinn minn héldi ég það út, svo mikið veit ég, hann kæmi mér yfir erfiðasta hjallann.“   - Þýðing: Gauti Kristmannsson.
 

Sjá viðburð á Facebook.

Umsjón: Soffía Bjarnadóttir, verkefnastjóri bókmenntaviðburða
soffia.bjarnadottir@reykjavik.is