Sagnakaffi l Þetta ER einleikið
Elfar Logi

Um þennan viðburð

Tími
20:00 - 22:00
Verð
Frítt
Hópur
Fullorðnir
Kaffistundir
Netviðburðir
Spjall og umræður

Sagnakaffi l Þetta ER einleikið

Miðvikudagur 9. febrúar 2022

Einleikarinn Elfar Logi Hannesson fjallar um einleikjaformið og sagnalistina sem sameinast í einleikjum hans. Það verður um sannkallaða Gíslatöku að ræða. Því Elfar Logi mun segja frá og flytja brot úr Gísla einleikja þrennu sinni. Gísli Súrsson, Gísli á Uppsölum og Gísli, Eiríkur og Helgi, nefndir Bakkabræður.  

Sagt er að í hinum vestfirsku fjöllum búi orka og ef þú ert umvafinn fjallahring þá er von á ofvirkni. Elfar Logi fór ekki varhluta af þessari vestfirsku sköpunarorku. Hann nam leiklist við The Commedia School í Danmörku. Hann stofnaði Kómedíuleikhúsið, atvinnuleikhús Vestfjarða, árið 1997 og hefur stjórnað því allar götur síðan. https://actalone.net/komediuleikhusid/

Elfar Logi hefur leikið í meira en fimmtíu leikverkum auk þess hefur hann leikið bæði í sjónvarpi, stuttmyndum og kvikmyndum. Árið 2004 stofnaði hann Act alone einleikjahátíðina og hefur verið listrænn stjórnandi hennar allt frá upphafi. Elfar Logi hefur ekki bara verið að leika sér hann hefur einnig setið við skriftir. Hefur hann sett saman fjölda verka fyrir leikhús bæði leikgerðir og eigin verk. Einnig hefur hann ritað nokkrar bækur um leikhús og eina barnabók.

Á Sagnakaffinu er reynt að víkka út ramma hefðbundinnar sagnamennsku. Sagðar eru sögur í tali, tónum, takti, ljóðum og leik. Fólk úr ýmsum geirum þjóðfélagsins er fengið til leiks, svo sem tónlistarfólk, leikarar, uppistandarar, ljóðskáld og rapparar svo fátt eitt sé nefnt.

Sagnakaffið fer að þessu sinni fram í Bergi í Gerðubergi og geta gestir fengið sér kaffi og með því á kaffihúsinu áður en dagskrá hefst.

Öll velkomin - ókeypis aðgangur.

Nánari upplýsingar veitir:
Ólöf Sverrisdóttir, verkefnastjóri
olof.sverrisdottir@reykjavik.is | s. 411 6256 / 664 7718