'Inn í vorið' eftir Aðalheiði Skarphéðinsdóttur
'Inn í vorið' eftir Aðalheiði Skarphéðinsdóttur

Um þennan viðburð

Tími
11:00
Verð
Frítt
Hópur
Fullorðnir
Sýningar

Artótek | Naglinn: Inn í vorið

Föstudagur 7. maí 2021 - Miðvikudagur 30. júní 2021

Listaverk eftir Aðalheiði Skarphéðinsdóttur verður til sýnis á Naglanum í Borgarbókasafninu Sólheimum í maí og júní. Verkið er fengið að láni úr Artótekinu, sem er til húsa í Borgarbókasafninu Grófinni.

Naglinn er heitið á sýningaröð á Borgarbókasafninu Sólheimum og er þetta 4. sýningin í röðinni. Hver sýning samanstendur af einu listaverki. Áhugasamir geta keypt verkið eða leigt það á kaupleigu þar sem viðkomandi eignast verkið þegar það er að fullu greitt. Sé sýningarverkið keypt (eða leigt) má kaupandinn velja, úr Artótekinu, hvaða verk verður næst til sýnis á Naglanum.

Aðalheiður Skarphéðinsdóttir var í Myndlista og handíðaskóla Íslands 1967-70. Hún stundaði einnig nám í Stokkhólmi, fyrst við Konstfack þar sem hún útskrifaðist sem textílhönnuður, og síðar í Konstnärernas Kollektivaverkstad. Hún rekur Gallery Múkka í Fornubúðum 8 við smábátahöfnina í Hafnarfirði. Aðalheiður hefur haldið um 30 einkasýningar á Íslandi, Finnlandi og Svíþjóð og tekið þátt í fjölda samsýninga víða um heim m.a. í Kína.

Aðalheiður vinnur með marga ólíka miðla. Má þar nefna grafík, vatnsliti, tauþrykk, handverk, rekavið o.fl. Hún sækir innblástur í náttúruna en í verkum hennar má finna ótal blæbrigði lita og mynstur. Að vinna með börnum í myndlist hefur verið henni mjög hugleikið og hvetjandi á sköpunarferli hennar.

Hólmfríður Gunnlaugsdóttir, umsjónarmaður Artóteksins, valdi verkið að þessu sinni. „Vorið er svo skemmtilegur tími. Sólin hækkar á lofti, farfuglarnir mæta til landsins og fuglasöngur ómar. Fuglarnir tveir á spjalli gefa mér fyrirheit um vorið og sumarið og fuglasönginn framundan.“

Verkið er hægt að leigja á 4.000 kr. á mánuði eða kaupa á 110.000 kr.

Nánari upplýsingar um Artótekið, listamanninn og verkið á https://artotek.is

 

Frekari upplýsingar:
magnus.orn.thorlacius@reykjavik.is | s. 411 6160
holmfridur.gunnlaugsdottir@reykjavik.is | s. 411 6112

Sjá viðburð á Facebook | info in English on Facebook
Opnunartími á Borgarbókasafninu Sólheimum