Jóladagatal | Stikkprufur úr flóðinu 2021

Við endurtökum leikinn frá því í fyrra og hó-hó-hóum í nokkra höfunda og þýðendur sem eiga bækur í flóði ársins. Eitt af öðru koma þau til byggða og kynna nýútgefnar bækur sínar, hvert með sínu nefi.

Fylgist vel með hér eða á Facebook í desember, alla daga fram að jólum!

23. desember

Það er runnin upp Þorláksmessa, þrátt fyrir að það hafi bara verið fyrsti desember í gær. Á morgun hringja jólaklukkur inn jólin, það er þögn í útvarpinu og jólahefðir hræra upp í tilfinningunum. En í dag opnum við glugga á jóladagatalinu og þar situr Hjalti Halldórsson og les upp úr bók sinni Eldurinn.

 

22. desember

Nú fer daginn að lengja, smátt og smátt, og börnin farin að lengja eftir jólunum - en þau renna upp eftir tvo daga, góðir hálsar. Í jóladagatalinu í dag er Júlía Margrét Einarsdóttir og hún les upp úr bók sinni Guð leitar að Salóme. 

 

21. desember

Þá er stysti dagur ársins runninn upp, bjartur og fagur... í örskamma stund. Við njótum hans eins og við getum, hvert á sinn hátt, og kannski einhverjir með því að hlýða á Guðrúnu Hannesdóttur lesa upp úr barnabókinni Asmódeus litli, en hún er jólagesturinn í dagatalsglugganum í dag.

Forvitnileg saga, eftir sænska rithöfundinn Ulf Stark, í þýðingu Guðrúnar.

 

20. desember

Nú fer að styttast í þetta, fjórir dagar til stefnu. Í glugga jóladagatalsins í dag er Akam, ég og Annika og Þórunn Rakel Gylfadóttir, höfundur bókarinnar. Við skulum hlýða á upplestur úr þessari fyrstu bók höfundar, sem tilnefnd er til íslensku bókmenntaverðlaunanna í ár.

19. desember

Kristín Ómarsdóttir tekur á móti okkur þennan fjórða sunnudag í aðventu og les upp úr bók sinni Borg bróður míns. Við mælum með að kveikja á Englakertinu og hlýða á upplesturinn. Fimm dagar til jóla. Við sendum sérstaklega hlýjar kveðjur til þeirra sem nú eru í sóttkví eða verða í einangrun yfir hátíðirnar.

18. desember

Í glugga dagsins er Aðalsteinn Emil Aðalsteinsson. Hann les upp úr smásagnasafni sínum, Svefngarðinum. Sögurnar mynda ferðalag gegnum tímann, allt frá upphafi síðustu aldar til fjarlægrar framtíðar. Afskræmdir minningarheimar og svikul undirmeðvitundin gera skilin milli draums og veru æði óskýr. Við gefum Aðalsteini orðið.

17. desember

Kristján Már Gunnarsson kom samferða Askasleiki í morgun og kíkir út um glugga jóladagatalsins með bók í farteskinu. Það er bókin Vala víkingur og epli Iðunnar. Við látum hann um að kynna hana.

16. desember

Rétt rúm vika til jóla og við opnum næsta glugga jóldagatalsins okkar. Þar situr Konan hans Sverris og höfundur hennar, Valgerður Ólafsdóttir. Hún les hér brot úr skáldsögunni. 

 

15. desember

Ingólfur Eiríksson situr með hönd undir kinn í glugga jóladagatalsins í dag. „Það eru 9 erfiðir dagar fram til jóla,“ andvarpar hann, „erfiðir fyrir mig.“ Nei, hann Ingólfur er reyndar lífsglaður ungur maður en í dag les hann upp úr bókinni sinni sem heitir Stóra bókin um sjálfsvorkunn.

 

14. desember

Nú fer biðin sannarlega að styttast og við höldum ótrauð áfram að gægjast inn á rithöfundana okkar. Í dag er það Tómas Ævar Ólafsson sem les fyrir okkur upp úr ljóðabók sinni, sem ber titilinn Umframframleiðsla.

 

13. desember

Ellefu dagar til jóla. Við opnum jóladagatalið og í glugganum birtist Ógn, ásamt höfundinum Hrund Hlöðversdóttur. Ógn er ungmennabók þar sem ýmislegt einkennilegt er á kreiki. Köttur með rauð augu, dularfullir hestar og fólk sem ef til vill er annað en það sýnist vera.

 

12. desember

Nú fer nú aldeilis að styttast í jólin. Fyrsti jólasveinninn kominn til byggða og við höldum auðvitað áfram að gægjast inn á rithöfundana okkar. Í dag er það Hlín Agnarsdóttir sem birtist í glugganum, bókin hennar heitir Meydómur og við gefum henni orðið.

 

11. desember

Í nótt er von á fyrsta jólasveininum, Stekkjastaur er líklega að klæða sig í ullarsokkana í Grýluhelli. Í dagatalinu okkar er hins vegar enginn jólasveinn, heldur Friðgeir Einarsson, sem les fyrir okkur upp úr bók sinni Stórfiskur.

 

10. desember

Tvær vikur til jóla og við opnum næsta glugga dagatalsins. Rithöfundurinn Eva Rún Snorradóttir situr í gluggakistunni í dag og ætlar að lesa fyrir okkur upp úr nýútkominni bók sinni. Óskilamunir heitir hún og þar má finna sögur um ástir sem finnast og tapast, um hvernig sársauki mótar okkur, um allt það sem brotnar en ekki síst brotin sem enginn vitjar

 

9. desember

Í dag er níundi desember, jólin nálgast hægt og bítandi - og við opnum glugga á jóladagatalinu. Stikkprufa úr jólabókaflóðinu; sending að vestan: Eiríkur Örn Norðdahl les upp úr bók sinni Einlægur Önd.

 

8. desember

Það eru eflaust margir sem gera sér ferð á Laugaveginn á aðventunni, til að spóka sig og skoða jólaljós, kaupa kannski einhverjar jólagjafir eða sötra heitt kakó. Laugavegurinn birtist líka í glugga dagsins, en þar skyggnumst við inn í fortíðina: Anna Dröfn Ágústsdóttir, sagnfræðingur, og Guðni Valberg, arkitekt, segja okkur frá bók sinni Laugavegi.

 

7. desember

Hallgrímur Helgason gægist út um glugga dagsins, þann sjöunda desember. Með í för eru sextíu kíló af kjaftshöggum og þrettán allsvakalegar jólasveinkur. Við vonum að þessi þriðjudagur fari mjúkum höndum um ykkur, kæru vinir, og gefum Hallgrími orðið! 

 

6. desember

Í dag gægist spennusagnahöfundur út um gluggann - eða gægist hún kannski inn um gluggann? Hvað sem því líður heitir bókin Launsátur og höfundurinn heitir Jónína Leósdóttir.

 

5. desember 

Þótt úti blási vindar og allt það... í hlýjum glugga jóladagatalsins fáum við tvo glaðninga í dag. Haukur Ingvarsson kynnir fyrir okkur bækur sínar Menn sem elska menn, sem er ljóðabók, og Fulltrúi þess besta í bandarískri menningu: Orðspor Williams Faulkners í íslensku menningarlífi 1930-1960, sem hann byggir á doktorsritgerð sinni. Við gefum Hauki Ingvarssyni, gluggagægi dagsins, orðið.

 

4. desember 

Það er fjórði desember og í glugganum situr einhver með snjóhvítt hár... þetta er samt hvorki engill né jólasveinn, heldur er þetta mynd- og rithöfundurinn Kristín Ragna Gunnarsdóttir sem ætlar að lesa upp úr nýjust bók sinni; Nornasaga 3: Þrettándinn.

 

3. desember 

Það snjóar fallegum jólasnjó í morgunsárið á höfuðborgarsvæðinu, á þessum þriðja degi desembermánuðar. Við opnum glugga jóladagatalsins okkar og þar lítur kona við, það er Brynja Hjálmsdóttir með ljóðabók sína Kona lítur við.

 

2. desember 

Næsti höfundur sem gægist út um gluggann er Gunnar Eggert Theódórsson. Hann hefur með sér bókina Nornaseið og les upp úr henni af mikilli innlifun. 

 

1. desember 

Fyrsti desember er runninn upp og við opnum fyrsta glugga jóladagatalsins. Þar situr rit- og myndhöfundurinn Bergrún Íris Sævarsdóttir með bók sína Kennarinn sem kveikti í.