Barnabókmenntahátíðin Mýrin

Dagana 12.-14. október fer fram alþjóðlega barnabókmenntahátíðin Mýrin í Norræna húsinu í Reykjavík. Borgarbókasafnið kemur að skipulagningu hátíðarinnar í samstarfi við Norræna Húsið, Rithöfundasamband Íslands, SÍUNG (Samtök barna- og unglingabókahöfunda) og IBBY á Íslandi. Yfirskrift hátíðarinnar í ár er Á kafi úti í mýri. Hafið og fantasían í barnabókmenntum. Ellefu erlendir og innlendir rit- og myndhöfundar taka þátt í fjölbreyttri þriggja daga dagskrá. Þetta er í ellefta skipti sem hátíðin er haldin en fyrsta hátíðin fór fram árið 2001. 

Höfundarnir sem taka þátt í hátíðinni eiga það öll sameiginlegt að hafa samið og skapað sögur sem fjalla um hafið og lífverur þess, verndun sjávar og þá menningarlegu táknmyndir sem eiga uppruna sinn að rekja til hafsins. Höfundarnir sem taka þátt í ár eru Jessica Love (US), Kent Kielsen (GL), Jenni Desmond (UK), Anna Fiske (NO), Anaïs Brunet (FR), Lena Frölander-Ulf (FI), Nick White (UK) ásamt íslensku höfundunum Gunnari Theodóri Eggertssyni, Kristínu Björgu Sigurvinsdóttur, Evu Rún Þorgeirsdóttur, Ævari Þór Benediktssyni og Lindu Ólafsdóttur

Hátíðin hefst fimmtudaginn 12. október á málþingi fyrir fagfólk á sviði barnabókmennta. Hæstvirtur Matvælaráðherra Svandís Svavarsdóttir setur hátíðina. Föstudaginn 13. október er boðið upp á smiðjur fyrir skólahópa en laugardaginn 14. október er fjölbreytt dagskrá fyrir börn og fjölskyldur þeirra: slakandi sögustund, hvalasmiðja, vatnsrennibrautagerð, hafmeyjusmiðja og neðansjávarball með DJ Lóu Hlín, rit- og myndhöfundi og tónlistarkonu úr FM Belfast. 

Hátíðin er opin öllum og aðgangur er ókeypis. Skráning á myrinfestival@gmail.com 

Materials