Barbara Demick

Bókmenntahátíð í Reykjavík | Barbara Demick

Bandaríski rithöfundurinn og blaðamaðurinn Barbara Demick mun flytja setningarávarp Bókmenntahátíðar í Reykjavík miðvikudaginn 8. september kl. 19.00 í Iðnó.

Barbara Demick er margverðlaunaður höfundur og meðal annars þekkt fyrir blaðagreinar sínar um mannréttindamál, en hún stýrði lengi Beijing-skrifstofu Los Angeles Times. Í ávarpi sínu mun hún fjalla um rithöfunda sem hafa andæft stjórn alræðisríkja.

Að borða Búdda: Líf og dauði í tíbeskum bæ (Eat the Buddha)  er nýjasta bók Demick frá árinu 2020 og kom út í íslenskri þýðingu Ugga Jónssonar á þessu ári. Bókin hefur verið nefnd ein besta bók ársins 2020. Í verkinu sýnir höfundur fram á hvað það þýðir að vera Tíbetbúi í nútímanum, að varðveita menningu sína, trú og tungumál undir ofurvaldi og viðvarandi kúgun kínverskra stjórnvalda.

„Um aldir var Tíbet þekkt sem konungsríki í strangri, sjálfskipaðri einangrun. Töfrar þess voru í leynum handan Himalajafjallanna og eins gætti landsins hlédræg og nær ósýnileg guðveldisstjórn sem Dalai Lama hvers tíma ríkti yfir, en hver þeirra var talinn sinn næsti forveri endurholdgaður. Í ritum um Tíbet frá 19. og 20. öldinni er að finna ógrynni frásagna af útlendingum sem reyndu að laumast inn í landið dulbúnir sem munkar eða einsetumenn. Nú á tímum eru það ekki Tíbetar sem setja slagbrandinn fyrir dyrnar heldur Kommúnistaflokkur Kína. Alþýðuveldið Kína hefur stjórnað Tíbet síðan árið 1950 og er sérdeilis óvinsamlegt í hlutverki hliðvarðarins þegar erlenda gesti ber að garði. […]

Á um það bil tíu ára fresti er Ngaba vettvangur mótmæla gegn stjórnvöldum sem enda ætíð með eyðileggingu og dauða. […] Þegar þetta er skrifað hafa 156 Tíbetar fórnað sér með því að kveikja í sér, nálega þriðjungur þeirra frá Ngaba og nágrenni, sá síðasti í nóvember 2019. Þessi dauðsföll eru pínleg fyrir stjórnvöld í Peking þar sem þau grafa undan fullyrðingum um að Tíbetar séu hinir ánægðustu undir kínverskri stjórn.“ Brot úr aðfaraorðum höfundar, Að borða Búdda.

 

Fyrri bækur Demick eru Logavina Street: Life and Death in a Sarajevo Neighborhood (1996) og Engan þarf að öfunda: Daglegt líf í Norður-Kóreu (2009, íslensk þýðing 2013) sem vakti mikla athygli. 

Verk Demick má finna á Borgarbókasafninu.

Þriðjudagur 7. september 2021
Flokkur
Materials