Monika Fagerholm

Bókmenntahátíð í Reykjavík | Monika Fagerholm

Vem dödade bambi? er ljóðræn og brútal margradda skáldsaga, stílfærð með brotakenndri aðferð upprifjunar, og tekst á við eitraða og hættulega karlmennsku. 

Hvað verður um minningar af hrottaskap og viðbjóði þegar tímanum vindur fram? Sagan segir sögu gerenda hópnauðgunar, sem eru fjórir ungir menn úr vel stæðum fjölskyldum í Villastan í Finnlandi. Meginfrásögnin snýst um atburði fyrir og eftir voðaverkið. Margradda minningar, samtöl og vísanir.

Nathan á að hafa haft upptökin að voðaverkinu, misþyrmingu og hópnauðgun í átta klukkustundir í kjallaraherbergi. Kærastan hættir með honum og það þarf að refsa henni. Frásögnin er að mestu sögð og séð frá sjónarhorni Gusten Grippe, sem er sá eini af fjórum gerendum sem gengst við sekt sinni. Sagan fjallar ekki um þolandann í þessum hryllingi heldur hverfur hún úr sögunni og deyr af völdum eiturlyfja áður en frásögnin hefst.

Vem dödadi bambi? frá árinu 2019 er sjöunda skáldverk Moniku Fagerholm sem er einn virtasti rithöfundur Finnlands, skrifar á sænsku og er margverðlaunuð. Hún hlaut Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs árið 2020 fyrir verkið sem var sagt vera stílfærð frásögn um dauðleikann, skrifuð með eldmóði.

Fagerholm steig fyrst fram í sviðsljósið með smásagnasafninu Sham árið 1987 en sneri sér svo að skáldsagnaskrifum. Hún er mjög athyglisverður höfundur og henni hefur verið lýst sem frumkvöðli og tímamóta rithöfundi sem gefur tóninn í straumum og stefnum bókmennta. 

Monika Fagerholm verður gestur Bókmenntahátíðar í Reykjavík, dagana 8. - 11. september. 

Hér má heyra umfjöllun og upplestur úr Vem dödadi bambi?

Hér gefur Monika Fagerholm góð ráð til þeirra sem þrá að skrifa: Ef þig langar að skrifa þá verður þú að byrja að skrifa ...

Fimmtudagur 2. september 2021
Flokkur
Materials