Sjö þýðendur og glæsilegar bókmenntaþýðingar

Sjö þýðendur og þýdd bókmenntaverk voru tilnefnd til Íslensku þýðingaverðlaunanna fyrir þýðingar útgefnar árið 2021. Verðlaunin eru veitt fyrir bestu þýðingu á bókmenntaverki af Bandalagi þýðenda og túlka í samstarfi við Rithöfundasambandið og Félag íslenskra bókaútgefanda. Það voru alls 70 bækur í pottinum í ár frá 15 bókaútgefendum.

 

Þýðendur, tilnefnd verk og brot úr umsögn dómnefndar:

Ásdís R. Magnúsdóttir
Fríða og dýrið, franskar sögur og ævintýri fyrri alda 
Útgefandi: Háskólaútgáfan

Bæði sögurnar og vandaður inngangur þeirra eru mikilsvert framlag til þekkingar okkar á bókmenntum sem við höfum litlar spurnir af.
 

Gunnar Þorri Pétursson
Tjernobyl-bænin - framtíðarannáll, eftir Svetlana Aleksíevítsj
Útgefandi: Angústúra

Þetta verk segir skelfilega sögu. [...] Hér segja margir sögu sína með ólíkum röddum. Þessum röddum kemur þýðandi til skila með glæsibrag.
 

Hallgrímur Helgason
Hjartað mitt, eftir Jo Witek og Christine Roussey
Útgefandi: Drápa

Bókin er ákaflega fallega úr garði gerð, teikningarnar líflegar og textinn, hefðbundin ljóð, sérlega fallegur. Þar kemur að hlut þýðandans sem leysir hlutverk sitt einstaklega vel af hendi.
 

Jóhann Hauksson
Rannsóknir í heimspeki, eftir Ludwig Wittgenstein
Útgefandi: Háskólaútgáfan

Það er sárasjaldan að þýðendur leggi í vandaverk sem þetta og því ber að fagna þegar það tekst jafn vel sem hér.
 

Jón Stefán Kristjánsson
Glæstar vonir, eftir Charles Dickensen.
Útgefandi: Mál og menning

Það er mikill fengur að fá íslenska þýðingu á þessu klassíska verki Dickens sem hingað til hefur verið lokað öðrum en þeim sem eru meira en stautfærir á ensku máli.
 

Jón Hallur Stefánsson
Ef við værum á venjulegum stað, eftir Juan Pablo Villalobos
Útgefandi: Angústúra

Frásögnin vegur salt á milli hins raunverulega og töfraraunsæis. Þýðandi kemur vel til skila blæbrigðum frásagnarinnar, háði og kímilegum aðstæðum þótt hrikalegar séu.
 

Sólveig Sif Hreiðarsdóttir
Á hjara veraldar, eftir Geraldine McCaughrean
Útgefandi: Kver bókaútgáfa

Umhverfið, störf manna og hugmyndir eru framandi og ýmis hugtök sem við sögu koma fjarlæg okkur. Þýðandanum hefur því verið vandi á höndum en þann vanda leysir Sólveig með mikilli prýði og opnar okkur framandlegan en þó kunnuglegan heim.

 

Í dómnefnd sitja Guðrún H. Tulinius, Þórður Helgason og Elísabet Gunnarsdóttir.

Borgarbókasafnið óskar þýðendum hjartanlega til hamingju með tilnefningarnar og býður lánþegum að lána þessi afbragðs bókmenntaverk fyrir börn, ungmenni og fullorðna lesendur.

Fimmtudagur 16. desember 2021
Flokkur
Materials