Sigrún Pálsdóttir hlýtur Bókmenntaverðlaun Evrópusambandsins 2021

Til hamingju Sigrún!

Við óskum Sigrúnu Pálsdóttur rithöfundi og sagnfræðingi innilega til hamingju en hún hlaut nýverið Bókmenntaverðlaun Evrópusambandsins fyrir bók sína Delluferðin. Fjögur ritverk til viðbótar voru tilnefnd fyrir hönd Íslands; Hansdætur eftir Benný Sif Ísleifsdóttur, Svínshöfuð eftir Bergþóru Snæbjörnsdóttur, Dauði skógar eftir Jónas Reyni Gunnarsson og Strendingar eftir Yrsu Þöll Gylfadóttur.

Við hvetjum lesendur til að kynna sér verkin og bendum á að á vef Bókmenntaborgarinnar er að finna umfjöllun Veru Knútsdóttur um verðlaunabókina þar sem hún segir m.a.:

Delluferðin eftir Sigrúnu Pálsdóttur

„Maður heyrir af ýmsum ferðum sem fólk fer nú á tímum sér til gamans, og í ljósi yfirvofandi loftslagsvár er kallað eftir því að fólk láti af ferðum sem hafa kannski ekki brjálæðislega mikinn tilgang, eru hálfgerðar delluferðir. Að ung kona á síðari hluta nítjándu aldar fari skreppitúr vestur um haf, leggi á sig erfiða, langa, ef ekki stórhættulega sjóferð til þess eins að sjá aðeins heiminn, er auðvitað delluferð par excellence – en ævintýraleg og bráðskemmtileg engu að síður. Það er ekki algengt að maður óski þess að höfundar teygi aðeins á sögum sínum, yfirleitt er því öfugt farið, en ég stóð mig að því að vilja spara mér lesturinn, eiga hann inni, bara til að lengja lestrarstundirnar aðeins og magna upp þá eftirvæntingu og tilhlökkun sem fylgdi því að lesa um ferðalag Sigurlínu Brandsdóttur, einnig þekkt sem Selena Branson, vestur um haf.”

Materials