Siljan - Myndbandasamkeppni
Siljan - Myndbandasamkeppni

Siljan 2019 | Myndbandasamkeppni fyrir grunnskólanemendur

ATH: Frestur til að senda inn myndband í keppnina hefur verið framlengdur til 8. apríl...

Barnabókasetur Íslands stendur nú í fimmta sinn fyrir Siljunni, myndbandasamkeppni fyrir grunnskólanemendur, í þetta sinn í samstarfi við Borgarbókasafnið í Reykjavík. Keppt er í tveimur flokkum, 5.-7. bekk og 8.-10. bekk. Siljan er opin nemendum í öllum skólum landsins en keppnin er styrkt af mennta- og menningarmálaráðuneytinu. 

Markmið keppninnar er einfalt: Að auka áhuga barna og unglinga á bóklestri. Við viljum fá krakka til að lesa meira, pæla í því sem þau lesa og tjá sig með sínum hætti um bókmenntir. Börn, og sérstaklega unglingar, leita að fyrirmyndum í sínu nánasta umhverfi. Það skiptir því gríðarmiklu máli að krakkar sjái aðra krakka lesa; lestur þarf að vera sýnileg, spennandi og eftirsóknarverð afþreying. Með Siljunni getum við styrkt áhugasama lesendur, skapað jákvæðar lestrarfyrirmyndir og virkjað hina ungu lesendur til jafningjafræðslu. Þannig getum við smitað fleiri af lestrarbakteríunni og stuðlað að bættu læsi. 

Markmiðið með Siljunni er þó ekki síður að efla skólasöfnin: Aðalverðlaunin eru 100.000 króna bókaúttekt fyrir skólasöfn sigurvegaranna frá Félagi íslenskra bókaútgefenda. Skólasöfn Brekkuskóla og Glerárskóla á Akureyri, Ingunnarskóla, Vogaskóla, Kelduskóla og Seljaskóla í Reykjavík og Bláskógaskóla í Reykholti og hafa nú þegar fyllt hillurnar með aðstoð Siljusigurvegara. Það getur því skipt skólana verulegu máli að nemendur taki þátt í keppninni. 

Nemendur geta unnið einir eða í hópi. Hvert myndband skal vera 2-3 mínútur að lengd og fjalla um eina barna- eða ungmennabók sem kom út á íslensku á árunum 2016-2018.

Vista skal myndböndin á netinu (t.d. á youtube.com) og senda slóðina og upplýsingar um höfunda til Barnabókaseturs: barnabokasetur@unak.is í síðasta lagi 8. apríl 2019. 

Verðlaun verða veitt fyrir þrjú bestu myndböndin í hvorum flokki. 
Fyrstu verðlaun: 25.000 krónur + 100.000 kr. bókaúttekt fyrir skólasafnið 
Önnur verðlaun: 15.000 krónur
Þriðju verðlaun: 10.000 krónur

Nánari upplýsingar veitir:

Brynhildur Þórarinsdóttir hjá Barnabókasetrinu
brynh@unak.is

Mánudagur 11. mars 2019
Flokkur
Merki