LESTRAR-HAKK | „Förum þetta á flæðinu“


Nýverið hlaut verkefnið Lestrar-hakk | Skapandi lestur styrk úr Þróunarsjóði innflytjendamála en að því standa Dósaverksmiðjan (e.The Tin Can Factory) og Borgarbókasafnið Gerðubergi. 

„Hugmyndin er að vera með valdeflandi lestur fyrir alla unglinga á aldrinum 12 - 16 ára, öll eru velkomin, óháð bakgrunni og móðurmáli“ segir Gígja Svavarsdóttir, framkvæmdastjóri Dósaverksmiðjunnar. „Þegar það eru vandkvæði við að lesa þá eignast lesturinn þig, þú átt hann ekki, hvernig getum við unnið með það að þau sem eiga erfitt með að lesa eignist lesturinn? Jú, við byrjum á því að finna sterku hliðarnar!“

Svanhildur Halla Haraldsdóttir er sérfræðingur á Borgarbókasafninu í Gerðubergi.

„Það er hægt að komast í gegnum lífið án þess að lesa, hægt að bjarga sér, kemur manni á óvart hversu mörg kunna illa að lesa. Þetta verður svo mikil skömm, því eldri sem þú verður þá verður þetta meira leyndarmál, fólk lærir aðferðir við að feika það. Því er gott að grípa krakka fyrir 16 ára aldur, þegar skólaskyldu sleppir, það getur hvatt þau til að halda áfram í einhvers konar námi. Það verður ekki skyldumæting, enginn fær fýlukarl fyrir að mæta ekki, en við trúum því að það verði svo gaman að enginn muni vilja missa úr. Það er mjög mikilvægt að ungmennin skrái sig á eigin forsendum, því þau langi að læra að njóta textans, skapa og hafa gaman með jafnöldrum en ekki vegna þess að foreldrarnir eru að senda þau.“

Gígja tekur undir það,

„Við ætlum að komast að því hver áhugamálin þeirra eru, hvað þau langar að læra og svo hverjar hindranirnar eru, er það lesblinda, vantar þekkingu á vestræna letrinu eða er eitthvað annað að koma í veg fyrir að þau geti lesið sér til gagns og gamans? Áherslan verður á að vinna út frá því jákvæða, ungmennin þurfa að finna að þau hafi alvöru styrkleika, enginn einstaklingur er bara lesblindur eða talar bara ófullkomna íslensku. Það skiptir máli að fara af stað út frá áhugasviði og byggja upp þolinmæði gagnvart sjálfum sér, nám er ferli og því lýkur aldrei.“

Fyrir öll, óháð móðurmáli

Á námskeiðinu veður lögð áhersla á íslenskt mál en það er hugsað fyrir öll sem langar að tengja betur við texta og lestur, óháð móðurmáli. Þannig mun skapast samfélag ungmenna með ólíkan bakgrunn, menntun og áhugamál. 

„Áherslan verður ekki á málfræði heldur lestur, skrif og sköpun, skapandi lestur. Þátttakendur og kennarar setja sér saman markmið í upphafi í gegnum lestrarprófun en síðan förum þetta á flæðinu í þá átt sem ungmennin vilja, kennum þeim að meta texta sem þau geta nýtt sér. Við vitum að ritun hefur mjög mikil áhrif á læsi, það er mikið unnið með það í fræðunum núna að skrifa sig til læsis. Jafnvel þótt fólk sé ekki vel læst þá getur það flest talað, til dæmis talað inn texta sem birtist svo ritaður. Á leiðinni verðum við svo með litlar vörður, eins og þegar við opnum instagram síðuna eða setjum inn textað myndband.“

„Texti er svo víða“ segir Svanhildur ,,á samfélagsmiðlum, í söngtextum, í kvikmyndum, allsstaðar. Ætlunin er að vekja athygli á þessu og þátttakendur stýra síðan ferðinni að miklu leyti sjálfir, þ.e.a.s. hvaða miðla þeir vilja nota, bæði til að æfa lestur en ekki síður til að búa til efni. Skapandi lestur getur verið til dæmis rapp, ljóð eða plaggat. Ef þeim finnst gaman að vinna i Photoshop þá geta þau notað það, eða Instagram. Eitt af verkefnum vikunnar getur til dæmis verið að taka mynd daglega og skrifa eina setningu við hverja til að setja á Instagram. Annað gæti verið að í stað þess að fá texta um fjölskylduna og læra orðaforðann bróðir, pabbi og systir, þá kannski taka þau frekar viðtal við ömmu sína.“

Ekki svindl að nýta sér tæknina

Leiðbeinendur á námskeiðinu hafa mikla reynslu í bæði kennslu og skapandi skrifum. Auk þess að vinna að fjölbreyttum verkefnum munu þátttakendur læra á ýmiskonar leiðréttingarforrit og hvernig þeir geta notað þau til að lesa yfir fyrir sig. Ólíkt því sem einhver myndi segja, að slíkt flokkist undir einhverskonar svindl, fullyrða Gígja og Svanhildur að því sé akkúrat þveröfugt farið, það þurfi enginn að hræðast það að skrifa því það sé alls enginn þörf á að kunna það 100%, tæknin sé til þess að nota hana við að aðstoða sig. 

Hluti af námskeiðinu er að búa til afurð, skapa eitthvað, t.d. búa til bók sem er ekki léttlestrarbók fyrir börn heldur staðsett í unglingadeildinni.

„Ég lána mikið af bókum til unglinga og barna á bókasafninu og finnst mikilvægt að það sé til efni sem er léttmeti fyri fullorðna og ungt fólk, ekki bara börn. Lokaafurðin þarf þó alls ekki að vera hefðbundin bók með sögu heldur getur einnig verið t.d. bók með tíu bestu instagram myndunum/textanum, hlaðvarp, hljóðbók, myndasaga eða heittvað annað.“

„Fyrir mér var bókasafnið tilvalinn staður, það er lifandi vettvangur, börnin eru þegar búin að búa til sitt örugga svæði á bókasafninu sem er kunnuglegt umhverfi“ segir Gígja að lokum.

Skráning og nánari upplýsingar á íslensku, ensku, pólsku, farsi, arabísku og rússnesku hér.

Nánari upplýsingar veita: 

Gígja Svavarsdóttir | gigja@skoli.eu
Svanildur Halla Haraldsdóttir | svanhildur.halla.haraldsdottir@reykjavik.is 

Flokkur
Merki
UppfærtÞriðjudagur, 21. nóvember, 2023 13:50