Almenningsbókasafnið sem samfélagsvettvangur

Það mátti heyra fjörugar umræður, nýjar hugmyndir líta dagsins ljós og samstarfsverkefni verða til þegar 150 starfsmenn almenningsbókasafna á Norðurlöndunum komu saman á ráðstefnunni Nordic Libraries Together á Borgarbókasafninu Úlfarsárdal dagana 19. og 20. október. Tilefnið var 100 ára afmæli Borgarbókasafnsins og var ráðstefnan skipulögð í samstarfi við Amtsbókasafnið á Akureyri og Bókasafn Kópavogs

Yfirskrift þessarar þriðju NLT ráðstefnu var Almenningsbókasafnið sem samfélagsvettvangur og innihélt dagskráin stuttar kynningar á verkefnum sem víkka sjóndeildarhringinn og fjölbreyttar vinnustofur, auk erinda frá bandaríska félagsfræðingnum Eric Klinenberg og hollenska arkitektinum Jan David Hanrath sem hefur sérhæft sig í hönnun bókasafna.

Meðal verkefna sem kynnt voru má nefna hvernig Oodi safnið í Helsinki hefur lagt sitt lóð á vogaskálarnar þegar kemur að því að auka borgaralega þátttöku í hinu lýðræðislega kerfi, virkjun ólíkra hópa til þátttöku í viðburðum og opinberri umræðum á Dokk1 í Árósum og hvernig óhefðbundnar leiðir hafa gefist vel til að fá fólk sem er að læra íslensku til að þora að æfa sig í að tala málið á Borgarbókasafninu

Í erindi sínu fjallaði Eric Klinenberg um mikilvægi þess að tryggja fólki aðgengi að opnum samfélagsrýmum í nærumhverfi sínu, en þar leika bókasöfnin stórt hlutverk. Erik hefur um árabil stundað rannsóknir og skrifað bækur um einmanaleika í nútímasamfélögum og nauðsyn þess að hlúa að félagslegum innviðum samfélagsins. Sagði hann að bókasöfn á Norðurlöndunum væru í fararbroddi þegar kemur að þróun bókasafna í takt við breytta tíma, eitthvað sem aðrar þjóðir gætu tekið sér til fyrirmyndar. Meðal bóka sem Eric hefur skrifað má nefna Palaces for the people : how social infrastructure can help fight inequality, polarization, and the decline of civic life og Going solo : the extraordinary rise and surprising appeal of living alone.

Jan David Hanrath hefur stýrt hönnun á mörgum bókasöfnum víða um heim og er nú í teymi hönnuða sem sigruðu nýlega hugmyndasamkeppni um nýtt Grófarhús. Sagði Eric gestum frá væntanlegum breytingum á Grófarhúsinu en verkefnið hefur hlotið nafnið Vitavegur, hönnunarferlinu og ítarlegu samráði við starfsfólk og notendur safnsins.

Borgarbókasafnið þakkar gestum innilega fyrir komuna og þátttökuna, fyrirlesurum og smiðjustjórum fyrir innblásturinn og Amtsbókasafninu á Akureyri og Bókasafni Kópavogs fyrir gott samstarf. 

Hlökkum til að hitta góða bókasafnsvini að ári en þá verður Nordic Libraries Together haldin í Oodi bókasafninu í Helsinki.

Hér má sjá skemmtileg og fræðandi Instagram higlights frá erindum þeirra Eric og Jan og hér má sjá viðtal við Eric í Kastljósi, mánudaginn 30. október (viðtalið hefst á 13:13)