Adam, Agnes og Bára

Hinsegin prentfélagið | Frá hugmynd að útgáfugleði

„Þetta verður ótrúlega kósý og skemmtilegt, þátttakendur fá að sjá hugmyndir sínar verða að veruleika í alvöru útgáfu, settri upp af atvinnuhönnuði.“

segir Agnes Ársæls (hún/hán) en hán ásamt Báru Bjarnadóttur (hún) er leiðbeinandi hjá Hinsegin prentfélaginu, klúbbi fyrir 15 – 18 ára ungmenni sem eru hinsegin eða tengja við hinseginleikann á einhvern hátt.

Vettvangur fyrir hugmyndir hinsegin ungmenna

Yfir eina önn mun hópurinn vinna að sjálfstæðri útgáfu, frá hugmynd til útgáfugleði. Þátttakendur prófa sig áfram í öllu því sem prentmiðillinn býður upp á, t.d. skapandi skrifum, plakata -og klippimyndagerð, grafík og myndlýsingu, allt í samtali við og með aðstoð leiðbeinenda og hönnuðar. 

„Hugmyndin spratt út frá samstarfi okkar Agnesar í listamannasamsteypunni Ræktinni sem gaf út málgagnið Hlust á listahátíðinni Sequences X. Í Hinsegin Ppentfélaginu blöndum við þannig saman útgáfu og ungmennastarfi“

segir Bára en þau Agnes eru bæði listmenntuð og með reynslu úr frístundastarfi. 

Agnes bætir við að það þurfi að bregðast við þessu margrómaða bakslagi í umgengni við hinsegin fólk í samfélaginu yfir höfuð.

„Það eru til staðir þar sem hinsegin ungmenni hittast, til að mynda Hinsegin félagsmiðstöðin. Með því að nýta Borgarbókasafnið og allan þann safnkost sem þar er að finna viljum við leyfa rödd þeirra að heyrast og skapa vettvang þar sem hinsegin ungmenni geta rætt sínar hugmyndir og áhugamál og síðan komið þeim áfram út í samfélagið í gegnum bókasafnið, sem er ákveðin samfélagsstoð.“

Hinsegin bækur

Ungmenni mega og eiga að taka pláss

Aðspurð hvort verkefni eins og Hinsegin prentfélagið sé mikilvægt segir Adam Flint Taylor (hann), hönnuður og kennari við Listaháskóla Íslands, að hann hefði viljað að slíkt hefði verið í boði þegar hann var að alast upp í litlum smábæ í Kaliforníu.

„Það var frekar erfitt að vera hinseginn þar. Ég er mjög spenntur að vera með og gera eitthvað fyrir ungt fólk sem á ekki að vera í skápnum lengur. Þetta gæti alveg eins verið hinsegin knattspyrnufélag eða hinsegin teiknifélag en af því að við erum sérfræðingar í hönnun og list þá er þetta bara eitthvað sem við getum gert mjög vel.“

Bára tekur undir það,

„ég man vel hvernig var að vera ung og hinsegin. Myndlist kenndi mér að tjá mig aðeins betur, það er hægt að tjá sig á svo marga vegu. Í gegnum prentið getum við deilt efninu beint út fyrir hinsegin samfélagið. Hugmyndin er líka að benda ungu fólki á að það eigi og megi taka þátt í starfi menningarstofnana strax, við höfum áhuga á því sem þau hafa að segja. Það er mjög mikilvægt að reyna að búa til sem flesta staði þar sem hinsegin fólk er öruggt að tjá sig. Sem starfsmaður bókasafnsins tel ég líka mjög mikilvægt að Borgarbókasafnið hafi áhuga á að hýsa og styðja við þennan hóp samfélagsins. Styðja við framgang hinsegin sköpunar á Íslandi.“

Mikilvægt að leyfa hlutunum að vera í flæði

Þau Adam, Agnes og Bára eru sammála um að það sé mikilvægt að leiðbeinendur á námskeiðinu tengi við hinseginleikann.  Bára segir að upplifun allra sé ólík en sem ung hinsegin manneskja hafi hún ekki verið meðvituð um mörg fullorðin hinsegin, hana hafi skort fyrirmyndir. Því sé gott fyrir þátttakendur að fara inn í rými þar sem þau deila með öllum, líka leiðbeinendunum. 

„Það skiptir samt ekki máli hvernig við tengjum við hinseginleikan. Sum eru með ákveðinn „label“ en önnur finna aldrei nákvæmlega hvernig þau tengja við“, segir Agnes og bætir við „það er mikilvægt að leyfa hlutum að vera í flæði. Oft er krafa á hinsegin fólk að útskýra sig og skilgreina sig en það er ekki gert við gagnkynhneigt fólk.“

Adam segir að orðið gay hafi mikið verið notað þegar hann var ungur og oft í neikvæðri merkingu.

„Ég tengi meira við queer eða hinsegin sem er orð sem lýsir meira samfélagi.“

Draumurinn er snjóboltaáhrif

Í Hinsegin prentfélaginu munu þátttakendur læra að þróa hugmyndir áfram sem hópur. Einnig munu þeir læra ýmsar aðferðir í skapandi vinnu eins og teikniæfingar, ritæfingar, ljósmyndun, myndasögugerð, grafíska hönnun og prentsaga tengd við hönnun skoðuð. Þá verður einnig farið í heimsókn í Listaháskóla Íslands. 

Agnes segir mikinn hinsegin arf í prentuninni - hinsegin fagurfræði, bæði í prentinu og myndlistinni.

„Þetta er allt liður í því að knýja þetta áfram og taka þetta frumkvæði sem aðilar eru byrjaðir á og taka þátt í þeirri öldu. Það eru komnar hinsegin deildir í bókasöfnin en listasöfnin eiga svolítið eftir að taka við sér. Nýló var reyndar með hinsegin myndlistarsýningu í fyrra.“

„Þetta er frábær æfing í að beita rödd sinni í öruggu umhverfi og vera einlæg“, bætir Bára við. „Draumurinn væri að námskeiðið hefði svona snjóboltaáhrif, það myndi valdefla þátttakendur til að gera meira síðar. Við erum að prófa verkfæri og mikilvægur hluti af því er að fagna útgáfunni saman, að ungmennin fái að taka sér pláss á bókasafninu.“

Hinsegin Prentfélagið hittist á 5. hæðinni í Borgarbókasafninu Grófinni annan hvern mánudag kl. 16:30 – 18:00, alls níu skipti fram að jólum. Fyrsta skiptið var mánudaginn 4. september en þau sem ekki komust þá eru hjartanlega velkomin mánudaginn 18. september. 

Þátttaka er ókeypis en skráning nauðsynleg hér

 

Flokkur
UppfærtFimmtudagur, 7. september, 2023 15:49