Kona leitar að bók

Innkaupatillögur | Leiðbeiningar

Er bókin sem þig langar að lesa ekki til á Borgarbókasafninu? Eða sjónvarpsþáttaserían sem þú hefur sparað og ætlar að hámhorfa á?

Ef þú hefur fullvissað þig um að það sem þú ert að leita að sé ekki til á bókasafninu, til dæmis með leitarvélinni á vefnum okkar, mælum við með því að þú sendir okkur innkaupatillögu, sem þú finnur í fætinum neðst á vefnum. Ferlið má sjá nánar í meðfylgjandi myndbandi, en einnig í punktaformi fyrir neðan það.

 

 

1. Smelltu á „Innkaupatillögur“ neðst á vefnum, í dökkgráa renningnum, undir flokknum „Gott að vita“.

2. Fylltu inn í reitina sem birtast með því að smella í þá og skrifa. Sá reitur sem er mikilvægast að þú fyllir inn í er „Titill“ en því fleiri reitir sem þú getur fyllt inn í, því betra. Það sakar ekki að láta ISBN númer fylgja, þ.e.a.s. ef þú veist það, en það er aðallega mikilvægt ef þú vilt mæla með einhverri ákveðinni útgáfu af efninu frekar en annarri.

3. Viljir þú fá efnið að láni, hakarðu í „Já“ reitinn undir textanum „Viltu fá gagnið að láni ef það verður keypt?“. Þá birtast tveir nýir gluggar sem þú þarft að fylla inn í; „netfang“ og „sími“. Það er sérstaklega mikilvægt að þú fyllir inn í reitinn „netfang“ svo við getum látið þig vita ef innkaupatillögunni er hafnað eða ef hún er samþykkt og frátekin fyrir þig þegar hún er komin til okkar. Þú getur svo einnig valið hvert þú viljir sækja efnið þegar - og ef - það verður keypt inn og tekið frá fyrir þig.

4. Viljir þú taka eitthvað annað fram varðandi innkaupatillöguna geturðu gert það í reitnum „Aðrar athugasemdir“.

5. Smelltu á hnappinn „Vista“. Þá á að birtast gluggi þar sem þér er þakkað fyrir innkaupatillöguna.

Þá er ferlinu lokið og við þökkum þér fyrir að nýta þér þessa þjónustu Borgarbókasafnsins.

Flokkur
UppfærtMiðvikudagur, 10. júní, 2020 12:57