Aldursfordómar í íslensku samfélagi

Hvað ert þú gamall / gömul / gamalt? Hefur þú heyrt að þú sért of ungur til að skilja, of gömul til að geta eða ekki nógu gamalt til að vera með? Hver ákvarðar aldurstakmörk og á hvaða forsendum? Hefur þú upplifað höfnun eða fordóma sökum aldurs? 

Þetta eru meðal þeirra spurninga sem ræddar voru nýlega í opnu samtali á Borgarbókasafninu Grófinni, auk þess sem skoðað var hvernig við vinnum gegn aldursfordómum og sköpum samfélag sem opnar á ný tækifæri, óháð aldri. 

Til að taka þátt í samtalinu voru mættar tíu konur úr hinum ýmsu áttum, bæði einstaklingar og fulltrúar fyrirtækja, samtaka og stofnana, meðal annars frá VIRK starfsendurhæfingarsjóði og Hoopla Ísland sem aðstoðar fyrirtæki við að finna sérfræðinga, auk þeirra Rebekku A. Ingimundardóttur, sviðslistakonu og Þóreyjar Sigþórsdóttur, leikkonu og raddþjálfa. Þær stöllur settu nýlega upp leiksýninguna Ég lifi enn – sönn saga, í Tjarnarbíói en kveikjan að sýningunni var kalt viðmót heilbrigðiskerfisins til eldra fólks, sem þær telja í raun skýra birtingarmynd aldursfordóma. Var handrit sýningarinnar skrifað út frá reynslusögum sem þær söfnuðu saman.

Fleiri sem mættu höfðu svipaða sögu að segja, að eldri borgarar væru of oft ekki þátttakendur í samfélaginu en mikilvægt væri að benda t.d. atvinnurekendum á að fólk sem komið er yfir miðjan aldur vill oftast ennþá vinna en sækist stundum frekar eftir því að minnka við sig, bæði hlutfall og ábyrgð þótt það vilji áfram læra eitthvað nýtt. Stundum skrifist það þó á einstaklingana sjálfa, þ.e.a.s. aldursfordómar í eigin garð. Þannig skipti sjálfstraustið miklu máli og forvitnin er drifkrafturinn í að lifa lífinu áfram lifandi, líka á hinu svokallaða þriðja æviskeiði, þá sé ekki síður mikilvægt að halda áfram að læra og jafnvel láta gamla drauma rætast.

Í opna samtalinu var einnig rætt um mikilvægi þess að byggja brýr á milli kynslóða, að hver kynslóð hafi sína fegurð og eigin áskoranir og því sé mikilvægt að deila reynslu og hugmyndum og vera skapandi í því hvernig brugðist er við. Þegar velt var upp spurningunni hvaða vettvangur væri góður til að brúa bilið milli kynslóða og jafnvel menningarheima, voru flest sammála um að matargerð og það að borða saman væri góður vettvangur.

Arnhildur Hálfdánardóttir frá Samfélaginu á Rás 1 slóst í för með gestum opna samtalsins. Hér má hlýða á þáttinn frá 29. febrúar sem helgaður var umfjöllunarefni dagsins, aldursfordómar í íslensku samfélagi.
 

Hvað er Opið Samtal

Opið samtal á Borgarbókasafninu er hlutlaus vettvangur þar sem bilið er brúað á milli einstaklinga, samtaka og stofnana. Í Opnu samtali er markmiðið að ræða saman brennandi málefni á jafningjagrundvelli, með það að markmiði að finna svörin saman, koma málum í farveg og að ólík sjónarmið fái að heyrast. 

Nánari upplýsingar veitir: 
Dögg Sigmarsdóttir 
Verkefnastjóri | Borgaraleg þátttaka 
dogg.sigmarsdottir@reykjavik.is

Flokkur
UppfærtFöstudagur, 12. apríl, 2024 10:28